Álftnesingar boða til herrakvölds af dýrari gerðinni næsta laugardag eða þann 18. október næstkomandi. Herrakvöld Álftaness verður sérstaklega veglegt í ár en um er að ræða uppboð af dýrari gerðinni og happdrætti að andvirði 2.000.000 króna. Það er því óhætt að segja að öllu verði til tjaldað, enda afar góð stemning á Álftanesi um þessar mundir.
Það sem vekur þó athygli margra er að boðin verður upp árituð NBA-treyja og er það enginn aukvisi sem hefur lagt blessun sína á treyjuna. Um er að ræða fjórfaldan NBA-meistara og leikmann Golden State Warriors, Draymond Green. Green hefur verið lykilmaður í sigurgöngu liðsins undanfarin ár og var ómissandi hluti af einu besta körfuboltaliði sögunnar.




