spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÁ eiginlega ekki orð hvað ég er stoltur af þeim

Á eiginlega ekki orð hvað ég er stoltur af þeim

Njarðvík mátti þola tap gegn Haukum í gærkvöldi í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn, 92-91.

Þrátt fyrir þetta tap þeirra í gær má segja að Njarðvík hafi gert gífurlega vel á tímabilinu. Var upphaflega spáð fjórða sæti deildarkeppninnar. Náðu hinsvegar að enda í öðru sæti deildarkeppninnar og þá unnu þær VÍS bikarmeistaratitilinn.

Í gær sáum við líkast til einn allra besta körfuboltaleik kvenna sem leikinn hefur verið á landinu, það er algerlega staðfest! Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga var að vonum sár og svekktur en í bland við það sýndi hann auðmýkt og umfram allt var hann stoltur af þeim árangri sem lið hans hafði sýnt í vetur.

“Ég er ótrúlega stoltur af liðinu okkar þó að þessi niðurstaða sé ofboðslega sár. Karakterinn og viljinn, að koma þessu úr mjög erfiðri stöðu í framlengingu í oddaleik. Hrós á Hauka að standa af sér storminn. Þær settu líka stór skot í framlengingunni.” sagði Einar Árni við Karfan.is eftir leik og augljóslega blendnar tilfinningar sem fóru um kappann.

Fyrir tímabilið var Njarðvík ekki spáð miklum hæðum og jú vissulega ástæða til. Óskrifað blað að miklu leyti, tefla fram ungum leikmönnum í bland við vissulega þekktar stærðir erlendra leikmanna. Ákveðin rússibani þetta tímabil þar sem að leikmenn komu og fóru og liðið “uppfært” á miðju tímabili sem var ákveðin vendipunktur í velgengni liðsins.

“Tímabilið var heilmikil fjárfesting í framtíðinni. Við ákváðum að veðja á ungar stelpur og ég á eiginlega ekki orð hvað ég er stoltur af þeim og stelpunum öllum. Bikarmeistara titill og þessi úrslitakeppni er klárlega eitthvað til að byggja ofan á. Ég verð líka að fá að þakka stuðningsmönnum. Þau voru frábær í þessari úrslitakeppni – hreinlega stórkostleg í kvöld. Stjórnin, sjálfboðaliðarnir, og styrktaraðilarnir fá líka miklar þakkir fyrir sitt framlag og ég er líka þakklátur fyrir teymið mitt sem leggur líf og sál í þetta. Það er risa hópur á bak við okkur og við finnum það vel og það er mikil hvatning til að halda áfram að feta veginn áfram.” sagði Einar Árni að lokum.

Fréttir
- Auglýsing -