Jamil áfram hjá Val

Deildar- og bikarmeistarar Vals hafa framlengt samning sínum við þjálfarann Jamil Abiad fyrir komandi tímabil.

Jamil mun sinna starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla á komandi tímabili auk þess að þjálfa drengjaflokk og unglingaflokk.

Jamil er sem stendur í Kanada þar sem hann er einn af þjálfurum Ottawa Blackjacks í CEBL deildinni sem er úrvalsdeildin þar í landi. Kanadíska deildin er sumardeild og er úrslitakeppnin að byrja núna en Jamil hefur verið einn af þjálfurum liðsins sl. þrjú ár.

„Ég er mjög ánægður að koma aftur og taka annað tímabil hjá Val. Við þurfum að taka upp þráðinn þar sem við skildum við hann í vor en við náðum frábærum árangri þó svo sá stóri hafi runnið okkur úr greipum á loka sekúndum oddaleiksins. Ég hlakka til komandi tímabils og fá að vinna með strákunum áfram og byggja ofan á það góða starf sem unnið er innan félagsins.“ sagði Jamil eftir að samið hafði verið fyrir komandi tímabil.