Ármenningar hafa samið við bandarískan leikmann fyrir komandi leiktíð. Í dag tilkynnti félagið að Devaughn Jenkins hefði skrifað undir hjá félaginu og mun leika með liðinu á næstu leiktíð.

Tilkynningu Ármanns má finna í heild sinni hér að neðan:

Jenkins er 28. ára bandarískur miðherji sem kemur frá Raiders Basket í Finnlandi. Hann lék með Angelo State háskólanum í Bandaríkjunum við góðan orðstýr. Síðan þá hefur hann leikið um alla evrópu, t.d. Kósóvó, Serbíu, Slóvakíu og síðustu tvö ár í Finnlandi.

Á síðustu leiktíð var hann með 24 stig og 14 fráköst að meðaltali í leik fyrir Finnska liðið Raiders. Þá var hann annar frákastahæsti leikmaður deildarinnar og var með næst flest varin skot af öllum leikmönnum deildarinnar. Einnig leiddi hann liðið sem komst í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu félagsins. Fyrir frammistöðu sína var hann valinn í fyrsta úrvalslið deildarinnar að henni lokinni. 

Til gamans má geta að Jenkins lék með Ahmad Gilbert sem lék með Hrunamönnum á síðustu leiktíð og var einn af allra bestu leikmönnum deildarinnar. Þar voru þeir með álíka tölfræði leiktíðina 2021-2022. 

Það eru gríðarleg gleðitíðindi að Devaughn Jenksins hafi valið að leika með liði Ármanns á næstu leiktíð en hann var eftirsóttur leikmaður. Við væntum mikils af þessum öfluga leikmanni en hann er væntanlegur hingað í september. 

Devaughn sjálfur segist mjög spenntur fyrir því að koma til landsins og er tilbúinn að sýna hvað í honum býr með liði Ármanns. 

Nokkrar breytingar hafa orðið á liði Ármanns en teljum við að koma Jenkins sýni að við ætlum okkur að vera með öflugt lið í vetur. Frekari fregnir af meistaraflokki karla eru væntanlegar á næstu dögum.