Þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Vals í Subway deild kvenna Ólafur Jónas Sigurðarson verður ekki með liðinu í titilvörn þeirra á næsta tímabili. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

Ólafur Jónas tók við liðinu fyrir tímabilið 2020-2021 og undir hans stjórn landaði það einum deildarmeistaratitli og tveimur Íslandsmeistaratitlum. Samkvæmt frétttilkynningu mun stjórn félagsins hafa falast eftir starfskröftum hans á næsta tímabili, en hann hafi verið ákveðinn í að taka sér frí frá þjálfun á næsta tímabili.