Valur tekur á móti Tindastól kl. 19:15 í kvöld í oddaleik um Íslandsmeistaratitilin. Það sem af er einvígi liðanna hafa þau skipst á að vinna útileikina, þannig að Valur hefur í tvígang unnið í Síkinu og Tindastóll hefur unnið báða leiki sína í Origo Höllinni. 

Á síðasta ári þurfti einnig oddaleik til þess að skera úr um hvort þessara liða myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum, en þá var það Valur sem vann eftir að hafa verið sterkari á lokasprettinum, 73-60.

Karfan hafði samband við Ólöfu Helgu Pálsdóttur Woods sérfræðing úr Körfuboltakvöldi og þjálfara og spurði hana út í einvígið og hvernig hún sér leik kvöldsins spilast.

Hvernig finnst þér einvígið hafa spilast, við hverju er að búast í þessum oddaleik?

“Einvígið sjálft er búið að koma mér mikið á óvart. Ég náði að spá rétt með hinar seríunnar en sá aldrei fyrir að sigurleikir yrðu aðeins unnir á útivelli þegar 4 leikir eru búnir. Það er því mjög erfitt að búast við einhverju í þessum oddaleik. Mér finnst Stólarnir hafa spilað mun agaðri bolta eftir að Pavel tók við en eru gríðarlega villtir og örvæntingarfullir þegar hlutirnir eru ekki að ganga með þeim. Aftur á móti eru Valsmenn virkilega agaðir og þrátt fyrir að stórstjörnur liðsins (Kristófer og Kári) eigi ekki sinn besta leik þá er aldrei sama örvænting hjá liðinu eða leikmönnunum þegar það kemur smá mótlæti. Mér finnst þeir hafa meiri yfirvegun og aga til að klára seríuna en aftur á móti hefur Pavel sýnt okkur hvers megnugur hann er sem þjálfari og ég er viss um að strákarnir beri mikla virðingu fyrir honum og hlusti á hans lausnir eftir síðasta tapleik. Einnig geta þeir dottið í þessa Stóla geðveiki sem erfitt er að stoppa… nema þú sért Valur.”

Hvernig fer leikurinn?

“Það er erfitt að spá um hvernig fer á morgun (sem er frábært) en ég ætla að segja að Tindastóll taki þetta á geðveikinni og hafi lært af síðasta leik að þeir þurfa að spila mun betri vörn til að vinna Íslandsmeistara Vals. Ég er örugglega búin að skrifa niður lið stroka út og skrifa nýtt 10000 sinnum en hjartað segir Tindastóll á meðan hausinn segir Valur.”