Valur tekur á móti Tindastól kl. 19:15 í kvöld í oddaleik um Íslandsmeistaratitilin. Það sem af er einvígi liðanna hafa þau skipst á að vinna útileikina, þannig að Valur hefur í tvígang unnið í Síkinu og Tindastóll hefur unnið báða leiki sína í Origo Höllinni. 

Á síðasta ári þurfti einnig oddaleik til þess að skera úr um hvort þessara liða myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum, en þá var það Valur sem vann eftir að hafa verið sterkari á lokasprettinum, 73-60.

Karfan hafði samband við Hörð Tulinius körfuboltatölfræðing og fyrrum ritstjóra Karfan.is og spurði hann út í einvígið og hvernig hann sér leik kvöldsins spilast.

Hvernig finnst þér einvígið hafa spilast, við hverju er að búast í þessum oddaleik?

Þetta einvígi hefur spilast þvert á allar eðlilegar spár. Ég bjóst við heimasigrum á línuna og að Valur myndi landa titlinum í oddaleik í Origo. Raunin hefur hins vegar verið útisigrar í fyrstu fjórum leikjunum og nú getur allt gerst þar sem Valur hefur tapað fjórum af sjö leikjum sínum í Origo í úrslitakeppninni. Ég býst við spennandi leik þar sem taugarnar verða þandar – bæði lið hitta illa og tapa boltanum oft. Valsmenn hafa haft yfirhöndina í andlegum styrk í seríunni og mun það ríða baggamuninn, en ef Tindastólsmenn mæta vel zen-aðir í leikinn er allt mögulegt.

Hvernig fer leikurinn?

Leikurinn fer 82-76 fyrir Val.