Valur tekur á móti Tindastól kl. 19:15 í kvöld í oddaleik um Íslandsmeistaratitilin. Það sem af er einvígi liðanna hafa þau skipst á að vinna útileikina, þannig að Valur hefur í tvígang unnið í Síkinu og Tindastóll hefur unnið báða leiki sína í Origo Höllinni. 

Á síðasta ári þurfti einnig oddaleik til þess að skera úr um hvort þessara liða myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum, en þá var það Valur sem vann eftir að hafa verið sterkari á lokasprettinum, 73-60.

Karfan hafði samband við Brynjar Þór Björnsson sérfræðing úr Körfuboltakvöldi og margfaldan Íslandsmeistara með KR og spurði hann út í einvígið og hvernig hann sér leik kvöldsins spilast.

Hvernig finnst þér einvígið hafa spilast, við hverju er að búast í þessum oddaleik?

Við eigum enn eftir að fá leik sem bæði lið eiga möguleika á að klára á síðustu mínútunum. Hingað til hefur annað liðið klárað leikina frekar þægilega og án þessarar gríðarlegu spennu sem einkenndi seríuna í fyrra. Mér finnst gaman að sjá hversu mikilvægur Frank Booker hefur verið Völsurum í sigurleikjunum þeirra, hann gefur Kára og Pablo mikið pláss til að vinna með Kristó, leikmaður sem margir voru búnir að afskrifa.”

Í oddaleikjum er skemmtilegast að fylgjast með hver af aukaleikurunum stígur upp. Við sáum Hjálmar eiga frábæran oddaleik í fyrra og gera gæfumuninn fyrir lið Vals.

Hvernig fer leikurinn?

“Ég spáði Tindastóli sigri í þessari seríu og ég verð að standa við mína spá. Pétur Rúnar mun eiga stórleik og sjá til þess að bikarinn fer í fyrsta skipti norður yfir heiðar.”