Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði karlaliðs Keflavíkur og þjálfari kvennaliðsins, hefur sagt upp samningi sínum við Keflavík. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum rétt í þessu.

Hann mun þar af leiðandi ekki leika með karlaliðinu á næsta tímabili né þjálfa kvennaliðið.

Hörður Axel kom sem leikmaður til Keflavíkur árið 2008 og hefur alla sína tíð síðan á Íslandi leikið með liðinu, en einnig var hann á mála hjá tíu félögum erlendis á þessum tíma. Sem leikmaður leiddi hann liðið í tvígang í úrslit, árið 2010 og árið 2021. Sem þjálfari tók hann við kvennaliði félagsins fyrir nýafstaðið tímabil og fór nokkuð óvænt með þær alla leið í lokaúrslit.