Landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson hefur ákveðið að segja skilið við lið Njarðvíkur í Subway deildinni. Þetta tilkynnti félagið fyrir stundu.

Samkvæmt tilkynningu Njarðvíkur er um samkomulag milli Hauks og féalgsins. Stjórn Njarðvíkur varð að þessari beðni og heldur Haukur því á önnur mið. Haukur gerði samning við Njarðvík til þriggja ára þegar hann kom úr atvinnumennsku 2021.

Að auki þeirra tveggja tímabila sem Haukur hefur spilað með Njarðvík spilaði hann einnig tímabilið 2015-2016. “Við kveðjum Hauk að sjálfsögðu með söknuði enda hörku leikmaður og frábær fyrirmynd. Að því sögðu þökkum við Hauki fyrir hans framlag til klúbbsins og óskum honum velfarnaðar. ” sagði Kristín Örlygsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar UMFN í tilkynningunni.

Haukur Helgi var með 9,5 stig og 4,2 fráköst að meðaltali í 21. leik fyrir Njarðvík á nýafstaðinni leiktíð. Njarðvík féll úr leik í undanúrslitum deildarinnar eftir tap í einvígi gegn Tindastól 3-1. Þessi vera Hauks í Njarðvík hefur litast nokkuð af meiðslum en segja má að hann hafi verið að ná vopnum sínum á ný á undanförum misserum.

Haukur hefur verið orðaður nokkuð við Stjörnuna í síðustu leigubílasögum en engar staðfestar fregnir eru af því. Hann er auðvitað uppalinn hjá Fjölni en hefur einungis leikið með þeim og Njarðvík á Íslandi. Það verður því spennandi að sjá hvar Haukur endar á komandi leiktíð.