Sameinað lið Hamars og Þórs varð í vikunni Íslandsmeistari í 12. flokki kvenna eftir sigur gegn KR í oddaleik um titilinn á Meistaravöllum, 76-66. Úrslit 12. flokks voru nú í fyrsta skipti leikin sem sería þar sem vinna þurfti tvo leiki til að verða Íslandsmeistari, og að þessu sinni höfðu Þór Þ./Hamar betur 2-1 eftir jafna og spennandi rimmu við KR. Þór Þ./Hamar vann fyrsta leikinn á Meistaravöllum 73-69 en KR jafnaði rimmuna í öðrum leik liðanna með 9 stiga sigri, 73-64. Í oddaleiknum hafði Þór Þ./Hamar svo betur með 10 stigum, 76-66, og urðu þar með Íslandsmeistarar. Emma Hrönn Hákonardóttir var valin verðmætasti leikmaður úrslitanna, en hún skilaði 24,3 stigum, 9,7 fráköstum, 6 stoðsendingum og 2,7 stolnum boltum í einvíginu.

Hér fyrir ofan má sjá mynd af nýkrýndum Íslandsmeisturunum, en þjálfari þeirra er Davíð Arnar Ágústsson.

Mynd / KKÍ