Valur lagði Keflavík í Blue Höllinni í kvöld 66-69 í fyrsta leik úrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna. Valur því komnar með yfirhöndina 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrir leik

Á leið sinni í úrslitin lögðu deildarmeistarar Keflavíkur granna sína úr Njarðvík nokkuð örugglega, 3-1, á meðan að Valur þurfti fimm leiki til þess að komast framhjá Haukum, 3-2.

Keflavík og Valur mættust í fjögur skipti í deildarkeppni vetrarins og skiptu með sér sigrum. Síðustu viðureign liðanna þann 15. mars vann Keflavík nokkuð örugglega heima í Blue Höllinni, 70-55. Í þeim leik var Karina Denislavova Konstantinova besti leikmaður vallarins með 20 stig, 8 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Gangur leiks

Valskonur byrja leikinn ögn betur og eru yfir lengst af í fyrsta leikhlutanum. Undir lok hans nær Keflavík þó yfirhöndinni í stutta stund og er leikurinn meira en minna bara jafn út fjórðunginn. Nokkuð ljóst að spennustigið var hátt hjá báðum liðum, þar sem á báða bóga var mikið um tapaða bolta og almenn vandræði á þessum fyrstu mínútum leiksins, sem er kannski ekki óeðlilegt í fyrsta leik úrslita. Munurinn eitt stig fyrir annan leikhluta, 13-12.

Það var síst minna bras á liðunum í upphafi annars leikhlutans. Þeim gengur þó betur að koma stigum á töfluna og eru það heimakonur í Keflavík sem ná að vera skrefinu á undan í öðrum fjórðungnum. Mest fara þær 7 stigum á undan í lok leikhlutans, sem þær leiða með þegar að liðin halda til búningsherbergja, 36-29.

Daniela Wallen dró vagninn fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum með 15 stigum á meðan að Simone Gabriel Costa var komin með 11 stig fyrir Val.

Mest ná heimakonur í Keflavík 13 stiga forystu með góðu áhlaupi í upphafi seinni hálfleiksins. Valskonur gera þó vel að missa þær ekki lengra frá sér og ná hægt og bítandi að vinna forskotið aftur niður undir lok þriðja fjórðungsins. Næst komast þær 2 stigum frá Keflavík þegar um 2 mínútur eru eftir af þriðja, 49-47, en munurinn er 3 stig að honum loknum, 54-51.

Leikurinn er svo í járnum vel inn í fjórða leikhlutann, þar sem að þegar 4 mínútur eru eftir af leiknum er allt jafnt 64-64. Báðum liðum gengur nokkuð erfiðlega að koma stigum á töfluna í lok leiks, en Valur er tveimur stigum yfir, 66-68 og ná að stoppa nánast allt sem Keflavík reynir á sóknarhelmingi vallarins. Með 18 sekúndur eftir fær Keflavík sitt þriðja tækifæri til þess að jafna eða komast yfir, en allt kemur fyrir ekki. Á lokasekúndum leiksins reynir Keflavík hvað þær geta til að fá önnur tækifæri, en lukkan er ekki með þeim. Valur vinnur leikinn 66-69 og tekur forystu í einvíginu 1-0.

Atkvæðamestar

Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur í kvöld með 17 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir Val var það Ásta Júlía Grímsdóttir sem dró vagninn með 16 stigum og 10 fráköstum.

Hvað svo?

Annar leikur einvígis liðanna er komandi laugardag 22. apríl kl. 19:15 í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks