Þór jafnaði metinn í 8 liða úrslita einvígi sínu gegn Haukum með öruggum sigri í Þorlákshöfn í kvöld, 96-75.

Einvígið er því jafnt 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í undanúrslitin

Nokkrar breytingar voru á leikmannahópi Hauka fyrir leik kvöldsins. Í lið þeirra vantaði tvo lykilmenn, miðherjann Norbertas Giga og leikstjórnandann Darwin Davis, en báðir eru frá vegna meiðsla.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var ekki mikið jafnræði með liðunum í kvöld. Heimamenn leiddu frá upphafi til enda, með 12 stigum eftir fyrsta leikhluta, 14 stigum í hálfleik, 14 stigum fyrir lokaleikhlutann og sigra svo leikinn að lokum með 21 stigi, 96-75.

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í leiknum var Jordan Semple með 20 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Hauka var það Hilmar Smári Henningsson sem dró vagninn með 31 stigi og 4 stoðsendingum.

Þriðji leikur liðanna er komandi miðvikudag 12. apríl kl. 20:15 í Ólafssal.

Tölfræði leiks