Tindastóll leiðir 0-1 í undanúrslitum gegn Njarðvík eftir risavaxinn sigur í Ljónagryfjunni í kvöld. Gestirnir úr Skagafirði settu einfaldlega upp sýningu og pökkuðu Njarðvíkingum saman 52-85.

Þéttpökkuð stúkan lét vel í sér heyra þegar leikar fóru af stað, liðin skiptust á körfum en í stöðunni 7-7 ákváðu gestirnir úr Skagafirði að skipta í fluggírinn og stinga af!

Það sem við tók var eiginlega kennsla í því að spila í úrslitakeppninni, mikil barátta, flott vörn, fáránleg skotnýting þar sem Tindastólsmenn settu niður 8 af fyrstu 9 þriggastiga skotum sínum í leiknum. Með hverri mínútunni sem leið í fyrsta leikhluta var það nánast áþreifanlegt hvernig fjaraði undan Njarðvíkingum.

Drungilas og Sigtryggur leiddu gestina í fyrri hálfleik þar sem Sigtryggur var með 16 stig og Drungilas 11 og 3 varin skot. Hjá Njarðvíkingum var Basile með 8 stig og staðan 25-50.

Algerlega frábær fyrri hálfleikur hjá gestunum og ljóst að eitthvað mikið þyrfti að ganga á ef heimamenn í Njarðvík ætluðu sér eitthvað í þessum leik.

Fyrir heimamenn tók ekkert betra við í síðari hálfleik, Tindastóll hélt sínu striki og trúin í stúkunni og liðinu hvarf með öllu hjá Njarðvíkingum. Hvíta handklæðið inn snemma í þriðja leikhluta og lokatölur 52-85.

Flugeldasýning í stúkunni og á vellinum hjá Tindastól og ljóst að Skagfirðingar eru klárir í slaginn á öllum vígstöðvum. Ef þetta á að verða sería þá liggur boltinn hjá Njarðvíkingum núna og því einkar fróðlegt að sjá hvernig þeir koma til leiks í troðfullu Síki þar sem hávaðinn verður nú einhver.

Sigtryggur Arnar leiddi Tindastól í dag með 21 stig en Badmus bætti við 17 stigum og 11 fráköstum og þá áttu þeir Drungilas og Woods einnig góðar rispur. Heilt yfir heljarinnar frammistaða hjá Skagfirðinum sem léku af mikilli orku.

Njarðvíkurmegin var boðið upp á 17% þriggja stiga skotnýtingu og ráðaleysi á báðum endum vallarins. Basile var stigahæstur Njarðvíkinga með 14 stig og 3 fráköst og fátt annað markvert gerðist í herbúðum heimamanna.

Annar leikur liðanna fer fram í Síkinu þann 23. apríl næstkomandi kl. 19:15.

Tölfræði leiks