Tindastóll tryggði sér sæti í undanúrslitum Subway deildar karla með öruggum sigri á Keflavík í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar höfðu unnið fyrstu tvo leiki einvígisins en Keflavík svaraði fyrir sig í leik 3 í Keflavík.

Heimamenn komu ákveðnir til leiks og náðu forystu í byrjun, voru komnir í 13-4 eftir tæpar 5 mínútur. Keflvíkingar rykktu til baka og Halldór Garðar jafnaði í 17-17 þegar tvær mínútur lifðu af fyrsta leikhluta. Stólar svöruðu með 8-2 kafla og leiddu 25-19 að fyrsta leikhluta loknum. Gestirnir komu mjög ákveðnir inn í leikinn í öðrum leikhluta og slógu heimamenn svolítið útaf laginu. Eftir einungis 3 mínútur voru Kef komnir yfir 27-28 eftir vörumerkiskörfu frá Milka. Munurinn hélst svo 2-4 stig þangað til heimamenn náðu áttum og fóru að svara aðgerðum gestanna og taka aðeins á þeim í vörninni. Tveggja turna leik Keflvíkinga hafði Pavel svarað með sínum turnum, Drungilas og Sigga en það hægði töluvert á leik heimamanna og betur gekk þegar hraðara lið var inná. Tindastóll tók á sprett síðustu 3 mínúturnar og þristur frá Arnari kom þeim í 13 stiga forystu þegar hálf mínúta var eftir en eftir smá barning var staðan 49-39 í hálfleik.

Þriðji leikhluti hefur stundum verið höfuðverkur hjá Tindastól en þó alls ekki í síðasta leik og heldur ekki í þessum. Þeir hertu tökin í vörninni og unnu leikhlutann að lokum 21-15 og staðan því 70-54 fyrir lokaátökin. Fljótlega varð ljóst að heimamenn ætluðu alls ekki að gefa þessa forystu eftir og þrátt fyrir sprikl frá gestunum, ekki síst Hjalta á hliðarlínunni, sigldu þeir að lokum öruggum sigri í höfn 97-79.

Hjá heimamönnum má segja að liðsheildin hafi verið maður leiksins og stigaskor dreifðist nokkuð jafnt. Keyshawn varð stigahæstur með 22 stig og Pétur Rúnar var frábær með 12 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá gestunum var fátt um fína drætti, Okeke stigahæstur með 17 stig og framlagshæstur, þó með einungis 14 framlagsstig. Gestirnir mættu varla til leiks.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt – Sigurður Pálsson)

Viðtöl / Sigurður Pálsson

Umfjöllun / Hjalti Árna