Hinir sigursælu 2007 Stjörnudrengir náðu þeim frábæra árangri um páskahelgina að verða Scania meistarar. Þjálfarar liðsins eru Snorri Örn Arnaldsson og Ögmundur Árni Sveinsson.

Stjörnuliðið átti frábært mót, tapaði ekki leik og óx ásmegin allt mótið. Í úrslitaleiknum vann liðið öruggan sigur á lið Högsbö frá Svíþjóð 75-52 þar sem Guðlaugur skoraði 24 stig, Björn Skúli 15, Benedikt 11 og Atli 10 stig. Svíarnir voru vel studdir af vaskri sveit framan af leik en undir lok fyrsta leikhluta var forysta Stjörnunnar orðin rúm og áhangendur þeirra héldu sér þá til hlés. Allan leikinn naut Stjörnuliðið góðs stuðnings vasks hóps Íslendinga sem voru fjölmennir í stúkunni

Í undanúrslitum lék Stjarnan við stórlið NSBU/Alba frá Danmörku sem hafði unnið mótið í bæði skiptin sem þessi árgangur hefur keppt á Scania og þykir ógnarsterkt, fullt af dönskum unglingalandsliðsmönnum. Fregnir herma jafnframt að danska liðið hafi aldrei tapað leik áður í keppni. Það þóttu því nokkur tíðindi að Stjörnustrákarnir rúlluðu yfir Danina og voru t.d. 24 stigum yfir í hálfleik. Liðið lék frábærlega og þakkaði sérstaklega íslenskri samkennd góðan leik því í stúkunni höfðu komið sér fyrir frábærir Fjölnisforeldrar og leikmenn sem studdu vel við Stjörnuna í leiknum í samfloti við bakland Stjörnunnar í mótinu.

Að móti loknu var Guðlaugur Heiðar Davíðsson valinn besti leikmaður mótsins (Scania King) og var auk þess í liði mótsins ásamt Birni Skúla Birnissyni. Báðir áttu frábært mót og voru stigahæsti og þriðji stigahæsti leikmaður flokksins. “Most Fighting Spirit” í úrslitaleiknum fékk Benedikt Björgvinsson.


Aðspurður sagðist þjálfari liðsins, Snorri Örn , eðlilega mjög sáttur með gengi liðsins. “Strákarnir stóðu sig frábærlega, bæði innan sem utan vallar og vöktu athygli mótherja og áhorfenda fyrir frábæra frammistöðu. Sigurinn á mótinu var verðskuldaður, og var liðið í bílstjórasæti í öllum leikjum sínum. Það vann eiginlega alla leiki mjög örugglega. Það var meira að segja svo að mótherjar okkar í riðlakeppninni, sænska liðið Malbas, mætti t.d. á leiki okkar í útsláttarkeppninni til að fylgjast með strákunum því þeir voru svo hrifnir af leikstíl þeirra og færni. Strákarnir hafa lagt mikla vinnu á sig til að komast á þennan stað og hafa bæði möguleika á og metnað til að ná enn lengra í framtíðinni.”

Liðsmyndin er: Efri röð: Snorri Örn Arnaldsson, Sölvi Kaldal Birgisson, Benedikt Björgvinsson, Steingrímur Mar Einarsson, Sigurbjörn Víðir Karlsson, Haukur Steinn Pétursson, Þórir Einarsson, Guðlaugur Heiðar Davíðsson
Neðri röð: Atli Hrafn Hjartarson, Bjarki Steinar Gunnþórsson, Þorsteinn Breki Pálsson, Björn Skúli Birnisson, Ragnar Páll Pálsson

Ert þú með frétt af þínu félagi á Scania mótinu? Sendu þær inn á karfan@karfan.is