Stjarnan varð í dag meistari í fyrstu deild kvenna eftir sigur á Þór í oddaleik úrslita, 67-57. Einvígið unnu þær í heild 3-2 og bætists þar með meistaratitill fyrstu deildarinnar við deildarmeistaratitilinn sem þær unnu á tímabilinu í verðlaunaskáp Umhyggjuhallarinnar.

Fyrir leik

Til þessa hafa liðin skipt með sér sigrum í úrslitaeinvíginu, þar sem að allir leikir hafa unnist á heimavelli. Bæði hafa deildarmeistarar Stjörnunnar og Þór unnið sér inn sæti í Subway deildinni á næsta tímabili vegna fjölgunnar liða.

Gangur leiks

Ljóst var frá fyrstu mínútu að þó að ekki væri verið að keppa upp á að fara upp um deild skipti þessi úrslitaleikur bæði lið gríðarlegu máli. Eins og oft vill verða þegar spennustigið er hátt áttu bæði lið erfitt með að koma stigum á töfluna á upphafsmínútunum, en undir lok fyrsta fjórðungs nær Stjarnan þó að vera skrefinu á undan, eru 4 stigum yfir fyrir annan, 18-14.

Í upphafi annars fjórðungs nær Stjarnan að styrkja stöðu sína enn frekar með sterku 11-0 áhlaupi. Á þessum mínútum átti Þór gífurlega erfitt með að passa boltann gegn sterkri pressuvörn Stjörnunnar sem oftar en ekki skapaði hraðaupphlaup fyrir þær. Þór gerir þó vel að missa þær ekki lengra frá sér en það og svara þessu áhlaupi ágætlega, en munurinn er þó11 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-25.

Stigahæst í fyrri hálfleiknum fyrir heimakonur var Riley Marie Popplewell með 11 stig á meðan að Tuba Poyraz var komin með 8 stig fyrir Þór.

Með miklum herkjum nær Þór að minnka bilið í upphafi seinni hálfleiksins. Minnst fer forysta heimakvenna niður í 7 stig í þriðja leikhlutanum, en undir lok hans virðast þær aftur ná betri tökum á leiknum og eru enn 10 stigum yfir fyrir lokaleikhlutamm, 54-44.

Varnarleikur beggja liða var það sterkur á fyrstu þremur mínútum fjórða leikhlutans að engin stig fóru á töfluna. Þór nær þó áfram að hanga í Stjörnunni og er munurinn 8 stig þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum, 56-48. Þór nær í framhaldinu að minnka muninn alveg niður í 1 stig, 56-55 með tæpar 3 mínútur á klukkunni. Í beinu framhaldi fær besti leikmaður þeirra í leiknum Tuba Poyraz sína fimmtu villu og segja má að það hafi verið vendipunkturinn. Stjarnan nær þægilegri forystu aftur og vinnur leikinn að lokum, 67-57.

Atkvæðamestar

Madison Anne Sutton var atkvæðamest í liði Þórs í kvöld með 8 stig, 20 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir Stjörnuna var það Riley Marie Popplewell sem dró vagninn með 22 stigum, 13 fráköstum og 7 stolnum boltum.

Hvað svo?

Vegna fjölgunar í Subway deild kvenna fara bæði lið í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Myndir / Jón Kristinn