Njarðvík tryggði sig áfram í undanúrslit Subway deildarinnar með sigri í þriðja leik gegn Grindavík í Ljónagryfjunni í kvöld, 102-93

Njarðvík er fyrsta liðið til þess að tryggja sig áfram, en þeir verða þá að bíða úrslita annarra viðureigna til þess að komast að því hver mótherji þeirra í næstu umferð verður.

Fyrir leik

Þrátt fyrir að hafa verið 2-0 yfir í einvíginu fyrir leik kvöldsins voru sigrar Njarðvíkur í þessum fyrstu tveimur viðureignum ekkert of sannfærandi. Vinna fyrsta leikinn í Ljónagryfjunni með 3 stigum, 87-84, og þann annan í HS Orku Höllinni með 8 stigum, 86-94.

Gangur leiks

Varnarlega fara heimamenn í Njarðvík gífurlega vel af stað í leiknum. Leyfa aðeins 4 stig fyrstu 5 mínúturnar og fá nokkra þrista til að detta á hinum enda vallarins, 14-4. Næstu mínútur gengur Grindavík þó betur að koma boltanum ofan í körfuna, mikið til Zoran Vrkic að þakka sem var með 9 stig í fyrsta leikhluta, en þegar fjórðungurinn er á enda leiðir Njarðvík með 11 stigum, 26-15.Heimamenn eru áfram með góð tök á leiknum vel inn í annan leikhlutann, en mest fara þeir með forystu sína í 21 stig undir lok hálfleiksins, 53-32.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleik var Lisandro Rasio með 17 stig á meðan að Zoran Vrkic var kominn með 9 stig fyrir Grindavík.

Grindvíkingar ná að hlaða í flott áhlaup í upphafi seinni hálfleiksins þar sem Damier Pitts fór fyrir þeim og setti hverja körfuna á fætur annarri. Minnst fer munurinn niður í 11 stig um miðbygg fjórðungsins, 61-50, en Njarðvík gerir ágætlega að svara því og eru enn þægilegum 14 stigum á undan fyrir lokaleikhlutann, 76-62. Í fjórða leikhlutanum nær Grindavík að koma muninum niður í 7 stig þegar tæpar 3 mínútur eru eftir, 92-85 og 5 stigum þegar ein og hálf mínúta er eftir, 94-89. Þrátt fyrir álitlegar tilraunir undir lokin komast þeir þó ekki nær og Njarðvík fer að lokum með sigur af hólmi, sópur á Grindavík, 3-0.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Njarðvíkur í kvöld var Lisandro Rasio með 21 stig og 12 fráköst. Fyrir Grindavík var það Damier Pitts sem dró vagninn með 30 stigum og 5 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (SBS)