Íslandsmeistarar Njarðvíkur lögðu Keflavík í kvöld í öðrum leik undanúrslitaeinvígis Subway deildar kvenna. Keflavík hafði unnið fyrsta leik viðureignarinnar, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sig í úrslitin.

Fyrir leik kvöldsins var ljóst að besti leikmaður Njarðvíkur Aliyah Collier myndi ekki taka frekari þátt í vetur, en hún meiddist á hnéi í síðustu viðureign liðanna.

Leikurinn var í miklu jafnvægi í upphafi, þar sem að heimakonum í Njarðvík tókst þó að vera með forystuna eftir fyrsta leikhluta, 20-18. Þeirri forystu hanga þær svo meira en minna á inn til búningsherbergja í hálfleik, 38-35.

Það er svo Keflavík sem byrjar seinni hálfleikinn betur, en mest ná þær að komast 9 stigum yfir í þriðja leikhluta. Þeim tekst þó illa að hanga á þeirri forystu og Njarðvík tekst aftur að ná yfirhöndinni fyrir lokaleikhlutann, 63-59. Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins svo nokkuð jafn á lokamínútunum, en að lokum sigrar Njarðvík með 4 stigum, 89-85.

Atkvæðamest fyrir heimakonur í leiknum var Isabella Ósk Sigurðardóttir með 20 stig og 12 fráköst.

Fyrir Keflavík var það Daniela Wallen sem dró vagninn með 32 stigum og 16 fráköstum.

Þriðji leikur liðanna fer fram komandi sunnudag 9. apríl í Blue Höllinni.

Tölfræði leiks