Valur mætti hálfblundandi í fyrsta leik seríunnar og mátti þola ósigur gegn liðinu úr 8. sætinu. Hlíðarendapiltar hófu sig hins vegar til stjarnanna í leik tvö og gjörsigruðu Garðbæinga.

Ekki skal gera lítið úr sigri Stjörnumanna í fyrsta leiknum, Arnar hefur lagt upp leikinn af sinni alkunnu snilld og leikmenn liðsins framkvæmt hlutina nægilega vel. En getur Arnar og hans lið endurtekið leikinn í kvöld, lagt Valsmenn öðru sinni að Hlíðarenda og komið sér í bílstjórasætið aftur?

Kúlan: Í Kúlunni birtast fuglar á flugi, óárennilegir mjög og láta ófriðlega. Valdsmannsleg rödd, sennilega rödd Óðins Borssonar, hvíslar svo ítrekað þennan vísubút:

,,Sjaldan blundandi valur

bráðina um getur

né sofandi maður sigur.“

Þetta merkir að Valsmenn verða á góðu flugi í kvöld og vinna leikinn örugglega, 105-86.

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Pablo, Hjálmar, Kári, Callum

Stjarnan: Gutenius, Armani, Júlíus, Darbo, Dagur

Gangur leiksins

Leikplanið hjá Arnari í upphafi var að koma Armani Moore inn í leikinn en það gekk engan veginn upp og aumingja manninum var pakkað saman af Valsvörninni. Heimamenn komust í 10-3 þegar um 4 mínútur voru liðnar af leiknum og Arnar blés til leikhlés og tók Armani útaf! Hlynur kom inn á og setti niður þrist og FG-ingurinn snjalli Dagur Kár henti niður 5 snöggum stigum í kjölfarið – staðan 17-13 og útlitið aðeins betra fyrir gestina. Heimamenn leiddu þó með 7 stigum, 22-15 eftir 10 mínútna leik.

Valurinn tyllti sér makindalega niður í öðrum leikhluta og gestirnir gengu á lagið. Stjörnumönnum tókst að koma boltanum á Gutenius undir körfunni sem gerði mjög vel og fékk körfu góða ítrekað. Meira að segja Armani tókst að koma kvikindinu ofan í. Garðbæingar tóku forystuna í 29-30 og leiddu með nokkrum stigum langt fram eftir leikhlutanum. Með vængjablaki síðustu mínúturnar komu heimamenn sér þó aftur yfir, Callum var heitur fyrir Val og Svalason klikkar ekki úr skoti þessi dægrin! Staðan 51-48 í leikhléi.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta þó heimamenn hafi orðið fyrir því áfalli að missa Kristó af velli vegna meiðsla. Um miðjan leikhlutann leiddu Valsmenn enn með 3 stigum, 63-60 en þannig var staðan heillengi. Heimamenn brutu loksins ísinn og komu stöðunni í 67-60. Stjörnumenn hrukku þá loksins í gírinn og áttu næstu 11 stig leiksins, þrjú síðustu með þristi frá meistara Hlyni. Gestirnir voru því með óvænta forystu, 67-71, fyrir lokaleikhlutann.

Heimamönnum var fyrirmunað að skora síðustu mínútur þriðja leikhluta og fyrstu 5 í þeim fjórða! Þegar 5 mínútur voru til leiksloka neyddist Finnur til að taka leikhlé enda staðan orðin 72-82 eftir annan feitan þrist frá Hlyni. Eftir leikhléið var komið að Káraþætti Jónssonar – hann hafði ekki verið líkur sjálfum sér fram að þessu en gerði sér lítið fyrir og skoraði 10 stig í röð og jafnaði leikinn og þá voru enn 3:20 eftir! Nú var gestunum fyrirmunað að skora og nauðsynlegt að draga upp úr pokanum hinn alkunna og leiðinlega frasa að gestirnir fóru að verja forystuna. Ekki einu sinni vítaskot vildu niður þar sem 3 af 4 rötuðu ekki rétta leið hjá Garðbæingum en Kári hélt uppteknum hætti, fékk körfu góða og smellti niður þristi á síðustu mínútunum. Darbo og Hlynur svöruðu fyrir gestina og Kristján Fannar fékk færi á að jafna þegar um 20 sekúndur voru eftir í stöðunni 92-89 en hann datt ekki að þessu sinni. Valsmenn kláruðu leikinn á vítalínni, lokatölur 96-89 í hörkuleik þar sem Íslandsmeistararnir sluppu með skrekkinn.

Menn leiksins

Kári Jónsson hrökk heldur betur í gang í fjórða leikhluta og endaði með glæsilega tölfræði. Hann setti 26 stig, tók 4 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Gutenius átti flottan leik fyrir gestina, setti 21 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Arnar var enn í vígamóð í viðtali eftir leikinn og hafði aðeins eitt í huga – að jafna metin í Garðabænum í næsta leik og mæta aftur að Hlíðarenda í oddaleik. Fyrirfram bjuggust sennilega margir við öruggum Valssigri í kvöld sem hefði nánast gert út um seríuna en það fór ekki svo. Það er vilji og baráttuandi í Stjörnuliðinu og undirritaður spáir hörkuleik á föstudag.

Kári Jónsson var ekkert sérstaklega sáttur með sína frammistöðu né liðsins lengi framan af í kvöld. Við nafnarnir urðum sammála um það að Valsmenn þurfa að mæta einbeittir til leiks í Garðabæinn og leggja allt í sölurnar til að klára seríuna þar. Oddaleikur gæti dregið Silfurskeiðina fram í sviðsljósið og aldrei að vita hvað gerist…

Tölfræði leiks