Stjarnan lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í fjórða leik undanúrslitaeinvígis fyrstu deild kvenna, 78-98.
Stjarnan hefur því unnið þrjá leiki gegn einum KR og mun mæta annaðhvort Þór eða Snæfell í úrslitaeinvígi deildarinnar.
Vegna fjölgunnar í Subway deildinni munu þó bæði lið úrslitaeinvígissins fara upp og hefur Stjarnan því tryggt að þær muni leika í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

Fyrir leik
Stjarnan hafði komist í 2-0 í einvíginu áður en KR minnkaði muninn í 2-1 í Umhyggjuhöllinni síðasta föstudag.

Gangur leiks
Leikurinn var í miklu jafnvægi á upphafsmínútunum. Báðum liðum gekk vel að koma boltanum í körfuna, en ljóst var að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Allt í járnum að fyrsta fjórðungi loknum, 25-25. Leikurinn er áfram nokkuð jafn fram á lokamínútur fyrri hálfleiksins, en þá mær Stjarnan góðu áhlaupi og fara með 10 stiga forystu til búningsherbergja, 41-51.
Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Violet Morrow með 20 stig á meðan fyrir Stjörnuna var Ísold Sævarsdóttir komin með 11 stig.

Stjörnukonur taka öll völd á vellinum í upphafi seinni hálfleiksins. Heimakonur gera þó vel wð missa þær ekki of langt frá sér og halda fengnum hlut inn í lokaleikhlutann, 60-71. Í þeim fjórða sér KR aldrei til sólar þrátt fyrir hetjulega baráttu. Að lokum sigrar Stjarnan leikinn með 20 stigum, 78-98.
Atkvæðamestar
Violet Morrow var potturinn og pannan í leik KR í dag með 32 stig og 10 fráköst. Henni næst var Lea Gunnarsdóttir með 14 stig og 6 fráköst.

Fyrir Stjörnuna var það Kolbrún María Ármannsdóttir sem dró vagninn með 32 stigum, 13 fráköstum og Riley Marie Popplewell bætti við 19 stigum og 11 fráköstum.
Hvað svo?
Stjarnan þarf að bíða úrslita viðureignar Þórs og Snæfells um hvoru liðinu þær mæti í úrslitaeinvíginu. Tímabil KR er hinsvegar á enda.
Myndasafn (væntanlegt)