Óvíst er hvort lykilleikmenn Hauka þeir Norbertas Giga og Darwin Davis taki þátt í oddaleik liðsins gegn Þór í 8 liða úrslitum Subway deildar karla í kvöld. Staðfestir félagið þetta í samtali við Körfuna á níunda tímanum í morgun.

Hvorugur hefur mikið náð að taka þátt í einvíginu, Norbertas vegna meiðsla í ökkla/rist og Darwin í kviðvöðva. Samkvæmt heimildum Körfunnar hafa ekki verið teknar ákvarðanir með hvort leikmennirnir taki þátt í leik kvöldsins og ekki er líklegt að það verði vitað fyrr en í upphitun í Þorlákshöfn.

Báðir hafa leikmennirnir verið gríðarlega öflugir fyrir Hauka á tímabilinu, Norbertas með 20 stig, 11 fráköst að meðaltali og Darwin með 18 stig og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Fjarvera þeirra kom þó ekki að sök í þriðja leik einvígis liðanna, sem Haukar unnu í Ólafssal og tóku 2-1 forystu í einvíginu. Þór jafnaði svo metin í síðasta leik,2-2, en þá var Norbertas með Haukum á nýjan leik.

Leikur kvöldsins hefst kl. 19:15 í Ólafssal í Hafnarfirði.