Fjölniskonur tóku á móti Val í Subway deild kvenna í kvöld. Fyrir leikinn var ljóst að Valur væri á leið í úrslitakeppni deildarinnar, en fráfarandi deildarmeistarar Fjölnis myndu missa af henni.

Leikur kvöldsins var aldrei jafn, en Valskonur höfðu 12 stiga forskot eftir fyrsta fjórðung, 13-25, og 20 stiga forskot í hálfleik, 31-51. Sá munur jókst bara í síðari hálfleik, og að lokum hafði Valur öruggan 31 stigs sigur, 71-102.

Brittany Dinkins var stigahæst heimakvenna með 22 stig, en í liði gestanna voru Kiana Johnson og Simone Costa stigahæstar með 23 stig hvor.

Síðasti leikur Fjölnis á þessu tímabili verður 29. mars þegar liðið leikur á útivelli gegn Keflavík. Sama kvöld mætir Valur liði Njarðvíkur á heimavelli sínum.