Valur lagði nýliða ÍR nokkuð örugglega í Skógarseli í kvöld í 24. umferð Subway deildar kvenna.

Eftir leikinn er Valur í harðri baráttu um efsta sæti deildarinnar með 40 stig á meðan að ÍR stefnir hraðbyr aftur í fyrstu deildina, eru í 8. sætinu með 2 stig.

Leikurinn var í ágætis jafnvægi í upphafi þar sem að ÍR var skrefinu á undan fyrstu mínúturnar. Valskonur ná þó góðum tökum á leiknum fyrir lok fyrsta leikhluta þar sem þær leiða að lokum með 5 stigum, 18-23. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Valur svo að bæta enn við forskot sitt og fara þær með 14 stig til búningsherbergja í hálfleik, 34-48.

Segja má að gestirnir hafi svo endanlega gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Með sterkum 5-22 þriðja leikhluta keyra þær forystu sína upp í 31 stig fyrir lokaleikhlutann, 39-70. Enn bætir Valur svo við forystu sína á lokamínútum leiksins, en að lokum vinna þær leikinn með 41 stigi, 53-94.

Best í liði Vals í kvöld var Ásta Júlía Grímsdóttir með 22 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir ÍR var það Greeta Uprus sem dró vagninn með 10 stigum og 11 fráköstum.

Tölfræði leiks