Njarðvík og Þór Þorlákshöfn buðu upp á besta deildarleik tímabilsins til þessa þegar tvíframlengja varð magnaða rimmu liðanna. Heimamenn í Njarðvík höfðu að lokum sigur 117-113 og bundu þar með enda á fimm leikja sigurgöngu Þórsara og unnu að sama skapi níunda deildarleikinn sinn í röð.

Lengst af voru Njarðvíkingar með örlitla forystu, komust jafnvel 12-15 stigum yfir en Þórsarar létu ekki stinga sig af og úr varð mögnuð skemmtun. Sigurinn hefði í raun geta dottið báðu megin og hefði hvor niðurstaðan sem er verið sanngjörn.

Dedrick Basile og Vincet Shahid bárust á banaspjót í kvöld og sýndu hversu magnaðir leikmenn þeir eru. Vincent inn á í 44 mínútur og Dedrick í 43, Vincent með 37 stig og 10 stoðsendingar og Dedrick með 31 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Alvöru jeppar.

Sitt sýndist hverjum í leikmannahópunum, þjálfarateymunum og í stúkunni með mörg atriði leiksins og hvernig þau voru túlkuð af dómurum leiksins. Njarðvíkingar misstu tvo af velli með 5 villur og Þórsarar þrjá leikmenn. Gestirnir voru allt annað en sáttir þegar Styrmir Snær Þrastarson fékk sína fimmtu villu og að mati margra fyrir afar litlar sakir. Munaði um minna fyrir gestina en Styrmir lauk leik með 17 stig og 4 fráköst en 13 af 17 stigum sínum í kvöld skoraði hann af vítalínunni.

Njarðvík og Þór eru lið sem munu vafalítið setja mark sitt á úrslitakeppnina. Njarðvíkingar hafa þó verið stöðugari á tímabilinu á meðan Þórsarar hafa verið að vinna sig með miklum myndarbrag upp úr fúafeni því sem þeir lágu í við upphaf tímabilsins. Fjöldamargir jafnvel farnir að tala um titilmöguleika Þórsara á nýjan leik.

Óumdeildur leiðtogi Þórsara er Vincent Shahid og gerði hann varnarmönnum Njarðvíkinga oft lífið leitt í kvöld. Njarðvíkurmegin sýndi Haukur Helgi Pálsson hvers hann er megnugur og þó hann hafi skilað 23 stigum í kvöld þá var hann svaðalegur á varnarendanum, einkum og sér í lagi á erfiðustu köflum leiksins þar sem hann stal tveimur risastórum boltum.

Við þurfum ekkert að rekja hér garnirnar úr gangi leiksins, hann var einfaldlega rússíbanareið frá upphafi til enda. Þessi tvö lið munu selja sig dýrt í úrslitakeppninni og þó Þórsarar séu á stað í deildinni sem gæti jafnvel valdið því að þeir kæmust ekki í úrslitakeppninna er það einhvern veginn óhugsandi eftir svona leik að lið eins og Þór færi ekki í veisluna.

Án þess að kasta rýrð á nokkurn mann þá voru Dedrick, Haukur og Lisandro fremstir meðal jafningja í Njarðvíkurliðinu en hjá Þórsurum var Shahid í sérflokki með 37 stig og Styrmir 17. Emil Karel kom hrikalega sterkur inn af bekknum með einn sinn besta leik á tímabilinu með 15 stig og 4 fráköst. Þá setti Jordan Semple met á tímabilinu þegar hann tók 11 sóknarfráköst svo það verða einhverjar „stíga út“ æfingar hjá Benna og Njarðvíkingum á næstunni.

Næst á dagskrá hjá Njarðvíkingum er leikur á útivelli gegn KR en Þór mætir Tindastól í Icelandic-Glacial Höllinni.

Tölfræði leiks