Eftir sigur gegn Aþenu í kvöld 94-72 í Umhyggjuhöllinni í fyrstu deild kvenna er ljóst að Stjarnan er deildarmeistari 2023. Eftir 22 umferðir hefur þeim tekist að vinna 19 leiki og tapa aðeins 3. Fyrir neðan þær er Þór Akureyri í öðru sætinu með 17 sigra eftir jafn marga leiki og þá er Snæfell í þriðja sætinu, einnig með 17 stigra, eftir 23 leiki.

Þó ekkert lið geti náð Stjönunni í þessu efsta sæti þurfa þær samt sem áður að vinna sér inn sæti í Subway deildinni í gegnum úrslitakeppni, en það getur verið snúið. Síðast gerðist það á síðasta tímabili að Ármann vann fyrstu deild kvenna, en náði svo ekki að fylgja því eftir með sigri í úrslitakeppni til þess að vinna sig upp um deild.

Þrátt fyrir það er þessi árangur gífurlega flottur hjá Stjörnunni, sem að mestu eru að spila ungum uppöldum leikmönnum félagsins í stórum hlutverkum þetta tímabilið.

Mynd / Stjarnan FB