ÍA tók í kvöld á móti Hrunamönnum á Vesturgötunni á Akranesi.  Bæði lið mættu með lítinn byr í seglum sínum eftir síðustu leiki. Skagamenn höfðu tapað tveimur síðustu leikjum sínum eftir tvo sterka sigra í leikjum sínum þar á undan og Hrunamenn höfðu tapað þrem síðustu leikjum sínum í röð.  En eitt var víst fyrir leikinn og það var að annað liðið myndi sækja sigur í leikslok.


Leikurinn bar þess merki til að byrja með, liðin voru varkár í leik sínum og mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en gestirnir leiddu í hálfleik með tveimur stigum, 45-47.


Síðari hálfleikur hófst á svipuðu nótum en um miðjan þriðja leikhluta náðu Skagamenn góðum kafla og komust í tíu stiga forystu en þetta var í fyrsta sinn í leiknum sem svo mikill munur var á liðunum í leiknum.  Svo fór að ÍA lét forystuna aldrei af hendi og lönduðu að lokum sætum 101-94 sigri.


Liðin eru því jöfn í 8.-9. sæti með 18 stig þegar tvær umferðir eru eftir en Hrunamenn sitja í því 8. þar sem þeir hafa unnið tvo af þremur innbyrðis leikjum liðanna í vetur.

Punktar

-Allir 5 byrjunarliðsmenn ÍA skoruðu 10 stig eða meira í leiknum.

-Allir 9 leikmenn Hrunamanna sem voru á skýrslu skoruðu í leiknum.

-Jalen David Dupree (ÍA) og Ahmad James Gilbert (Hrunamenn) voru báðir með 38 framlagspunkta í leiknum.

-Bæði lið tóku 24 varnarfráköst og 10 sóknarfráköst og því tóku bæði lið samtals 34 fráköst í leiknum.

Tölfræði leiks

Önnur úrslit kvöldsins

Umfjöllun / HGH