ÍR lagði Keflavík í Skógarseli í kvöld í 21. umferð Subway deildar karla, 92-85. Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að ÍR eru fallnir í 11. sætinu með 12 stig.

Fyrir leik

Ekki var öll von úti enn fyrir ÍR að halda sæti sínu í deildinni fyrir leik kvöldsins. Til þess að svo yrði þurftu þeir að treysta á að Breiðablik myndi vinna Hött í Smáranum, sjálfir að vinna Keflavík í þessum leik og svo í síðustu umferðinni að leggja Hött með 11 stigum eða meira á Egilsstöðum.

Keflavík hafði nokkuð örugglega sigur í fyrri leik liðanna á tímabilinu, 108-88. Í þeim leik var það Dominykas Milka sem dró vagninn fyrir Keflavík með 23 stigum og 6 fráköstum. Fyrir ÍR var Taylor Johns atkvæðamestur með 23 stig og 13 fráköst.

Gangur leiks

Heimamenn eru með ágætis tök á leiknum á upphafsmínútunum. Eru snöggir að komast í forystu og leiða mest með 7 stigum í fyrsta leikhluta. Keflavík nær þó að vinna það niður undir lok fjórðungsins og munar aðeins stigi á liðunum fyrir annan, 22-21. ÍR nær áfram að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum. Keflavík er þó ekki langt undan og þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik munar tveimur stigum á liðunum, 47-45.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Hákon Örn Hjálmarsson með 11 stig á meðan að fyrir Keflavík var Eric Ayala kominn með 10 stig.

ÍR-ingar mæta sprækir til leiks í seinni hálfleik þrátt fyrir að hafa í raun fallið ákkúrat þá, þar sem leikur Hattar og Breiðabliks hafði klárast með sigri Austanmanna. Lengst af í þriðja fjórðungnum er ÍR með um 10 stiga forystu, en Keflavík nær að saxa á forskotið eftir að leikmaður ÍR Taylor Johns fær klaufalega fjórðu villu sína þegar tæpar fjórar mínútur eru eftir af þriðja fjórðung. Minnst koma muninum niður í þrjú stig áður en ÍR setur fótinn aftur á bensíngjöfina og leiða með 12 stigum fyrir lokaleikhlutann, 72-60.

Heimamenn ná aðeins að bæta í í upphafi fjórða leikhlutans og koma forystu sinni mest í 15 stig um miðbygg leikhlutans. Keflavík nær í framhaldi ágætis áhlaupi og komast 5 stigum frá þeim þegar um 3 mínútur eru eftir, 79-74. Undir lokin nær ÍR þó að halda sjó og leikurinn verður í raun aldrei neitt sérstaklega spennandi á lokamínútunum. Niðurstaðan að lokum öruggur sigur heimamanna, 92-85

Atkvæðamestir

Bestur í liði ÍR var Hákon Örn Hjálmarsson með 27 stig og 8 stoðsendingar. Fyrir Keflavík var það Dominykas Milka sem dró vagninn með 18 stigum og 12 fráköstum.

Hvað svo?

Lokaumferð Subway deildarinnar verður öll leikin á sama tíma komandi fimmtudag 30. mars, en þá fær Keflavík granna sína úr Njarðvík í heimsókn á meðan að ÍR mætir Hetti á Egilsstöðum

Tölfræði leiks