KR lagði Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í fyrstu deild kvenna, 63-83. Stjarnan hefur því sigrað tvo leiki í einvíginu á móti einum hjá KR, en vinna þarf þrjá til þess að komast í úrslitaeinvígið.

Fyrir leik

Stjarnan og KR mættust í þrígang í deildinni í vetur, tvisvar í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ og í eitt skipti á Meistaravöllum í Vesturbænum. Hafði Stjarnan sigur í öllum þremur leikjunum, með 8 stigum í október, 3 stigum í desember og að lokum 23 stigum nú í byrjun mars

Stjarnan hafði unnið tvo fyrstu leiki einvígis liðanna. Þann fyrsta naumlega í Umhyggjuhöllinni, en þann seinni með öllu meiri yfirburðum á Meistaravöllum.

Gangur leiks

Leikurinn er í nokkru jafnvægi á upphafsmínútunum. KR gengur þó betur að koma boltanum í körfuna eftir sem það líður á leikhlutann, þar sem þær oftar en ekki leysa fantavel úr pressuvörn heimakvenna. KR 9 stigum yfir fyrir annan leikhlutann, 16-25. Skot KR halda áfram að detta í öðrum leikhlutanum þar sem að þeirra mikilvægasti leikmaður Violet Morrow sér trekk í trekk um að brjóta á bak aftur pressuvörnina og uppsker liðið oft ríflega í framhaldi. Forskot KR komið í 14 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-50.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 13 stig á meðan að Violet Morrow var komin með 15 stig fyrir KR.

Heimakonur mæta ákveðnar inn í seinni hálfleikinn og ná að skera forskot KR niður í 7 stig. Meðal annars að þakka gífurlega sterkri innkomu Fjólu Gerðar Gunnarsdóttur inn í leikinn um miðbygg þriðja leikhlutans nær KR þá að hlaða í annað áhlaup og keyra forskot sitt upp í 21 stig fyrir lokaleikhlutann, 53-74.

KR gerir svo nokkuð vel að verjast einu lokaáhlaupi Stjörnunnar í upphafi fjórða leikhlutans, en þegar rúmar 5 mínútur eru eftir og KR er enn 22 stigum yfir, 56-78, er Stjarnan búin að koma byrjunarliði sínu eins og það leggur sig fyrir á bekknum. Næsti leikur verandi á sunnudag er það skiljanlegt. Undir lokin siglir KR virkilega öruggum tuttugu stiga sigur í höfn, 63-83.

Atkvæðamestar

Violet Morrow var best í liði KR í kvöld með 21 stig, 19 fráköst og Perla Jóhannsdóttir bætti við 12 stigum, 8 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Fyrir Stjörnuna var Kolbrún María Ármannsdóttir atkvæðamest með 15 stig og 10 fráköst. Henni næst var Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir með 4 stig og 13 fráköst.

Hvað svo?

Fjórði leikur liðanna er komandi sunnudag 2. mars í Vesturbænum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)