Ísfirðingurinn Hilmir Hallgrímsson hélt vestur um haf síðasta vor og gekk til liðs við Colorado State University Pueblo Thunde Wolves sem leikur í Rocky Mountain Athletic riðlinum í 2. deild NCAA frá uppeldisfélagi sínu í Vestra. Í 21 leik fyrir Vestra í Subway-deildinni á síðasta tímabili var Hilmir með 9 stig og 5 fráköst að meðaltali í leik en mest skoraði hann 26 stig í einum leik.

Með Vestra í Subway deildinni

Hilmir sem er nýorðinn 21 árs kom upp í gegnum yngri flokka Vestra og var meðal annars Scania Cup meistari með félaginu árið 2019. Auk Vestra hefur hann einnig leikið með Stjörnunni í Subway deildinni, ásamt því að hafa verið leikmaður allra yngri landsliða Íslands.

Fyrir leik fyrir Ísland

Tímabili CSU Pueblo er nú lokið og lék Hilmir 22 leiki fyrir liðið sem vann 12 leiki og tapaði 16 í vetur. Karfan heyrði í Hilmi og spurði hann út í þetta fyrsta ár í háskólaboltanum, stemninguna í Pueblo, boltann hér heima og hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?

“Það er virkilega gaman að vera kominn af stað hérna úti. Gaman að upplifa körfuboltann hérna hinu megin við hafið eftir að hafa horft á eitthvað tengt honum nánast uppá hvern einasta dag í mörg ár heima.”

Hvernig er stemningin í Pueblo, Colorado?

“Stemningin hérna er góð og það er vel mætt á leiki. Tímabilið var mikið upp og niður hjá okkur og við enduðum ekki nema með eitthvað í kringum 50% sigurhlutfall. Ég tók mikið eftir því að ef við unnum 2-3 leiki í röð þá jókst mætinginn og stemninginn til muna en aftur á móti öfugt ef hlutirnir voru ekki að ganga. Mér finnst stemninginn hérna úti svipuð og heima á Ísafirði en auðvitað er bara meira af fólki hérna úti.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima? (Hver er munurinn)

“Já, hann er svolítið öðruvísi hérna úti. Munurinn finnst mér stafa af öðruvísi reglum hérna úti. Hérna úti er 30 sekúndna skotklukka, tveir 20 mínútna hálfleikir, „media time-outs“ á 4-5 mínutna fresti, 1 og 1 vítaskot, og margt margt fleira sem er öðruvísi en FIBA reglurnar heima.  Það er mikið lagt uppúr því að gefa 100% effort og keyra sig alveg út í þann tíma sem þú ert á gólfinu afþví að það er svo mikið um leikhlé (þjálfara og media timeouts) Skotklukkan er 30 sekúndur þannig að það gefst mikill tími í að hlaupa kerfi og leita að öllum möguleikum sem kerfið og vörnin býður uppá, öðruvísi en heima þar sem sóknirnar eru oft styttri. Einnig er meira um íþróttamenn hérna úti en á móti finnst mér meiri leikskilningur heima.”

Var ekkert erfitt að fara út og treysta á að þú næðir að halda áfram að bæta þig þarna úti?

“Mér fannst ekki erfitt að taka ákvörðunina að fara út. Eftir að hafa hjálpað Vestra upp í Subway og spilað tímabilið með þeim í efstu deild fannst mér rétt að prófa eitthvað nýtt og með það tilboð sem ég fékk fannst mér upplagt að taka þetta skref. Hérna úti er allt það sem ég þarf til þess að bæta mig sem leikmaður og mér finnst ég vera í prógrammi sem gefur mér tækifæri á því að vaxa sem leikmaður og koma betri til baka.”

Hvernig fannst þér bæði þér persónulega og liðinu ganga á tímabilinu?

“Persónulega fannst mér ganga ágætlega þegar að tækifærinn gáfust. Liðið í ár var skipað af 3.-4.-5. árs leikmönnum sem gerðu tækifærin færri og sem fyrsta árs leikmaður var traustið oftar sett í hendurnar á eldri leikmönnunum. Liðið okkar í ár var með miklar væntingar fyrir tímabilið þar sem við vorum með sterkan eldri kjarna með blöndu af leikmönnum úr divison 1 skólum, JUCO, og leikmönnum sem voru á sínu 3. ári í háskólaboltanum. Við byrjuðum tímabilið sterkt en tókum síðan dýfu rétt fyrir jól. Tímabilið einkenndist af hægðum og lægðum og við enduðum á því að vera einum leik frá úrslitakeppnissæti. Þannig að það má segja að tímabilið hafi verið svolítil vonbrigði.”

Nú er bróðir þinn líka úti, er hann langt í burtu, hafið þið eitthvað náð að hittast?

“Já, Hugi spilar núna niðri í Texas með Angelina College. Ég er uppi í Colorado og hann niðurfrá í Texas, það eru góðir 1400 km á milli okkar þannig að við erum nú ekkert að skreppa á milli í heimsóknir. Tímabilið hérna úti gefur ekki tækifæri á því að koma heim um jólin, sérsaklega þar sem við erum ekki á austurströndinni, þannig að ég flaug niður til hans um jólin og við héldum þau saman með fjölskyldunni hans í Lufkin, Texas.”

Fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastir til að verða meistarar?

“Já, ég fylgist vel með. Þetta verður virkilega fróðlegt í vor, en mér finnst Valur búinn að vera óttarlega sannfærandi undanfarið og tel ég þá hvað líklegasta núna. Hinsvegar eru lið eins og Keflavík, Tindastóll, Haukar, og Þór mjög hættuleg og gætu vel komist á smá skrið á lokakaflanum.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Já, planið er að koma aftur út næsta tímabil, þar sem ég tel mig vera í góðri stöðu til þess að taka næsta skref sem leikmaður hér og skref innan liðsins og stimpla mig inn sem lykilleikmaður í róteringunni næsta haust.”

Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?

“Markmiðin mín eru klárlega að bæta minn leik og þroskast sem leikmaður. Einnig er stórt markmið að gera betur sem lið á næsta ári og komast í úrslitakeppnina í RMAC deildinni.”