Valur lyfti deildarmeistaratitlinum eftir tap fyrir Tindastóli í Origo Höllinni í lokaumferð Subway deildarinnar í kvöld. Næst á dagskrá hjá báðum liðum er úrslitakeppnin, en í henn mæta Íslandsmeistarar Vals liði Stjörnunnar og Tindastóll og Keflavík eigast við.

Hérna er meira um leikinn

Karfan ræddi við Finn Frey þjálfara Vals eftir bikarlyftingar:

Til hamingju með titilinn!

Takk fyrir það!

Nú eruð þið handhafar allra titla! Þetta verður ekki mikið betra…?

Neinei, bara gott að hafa klárað þetta, ég hef nú unnið deildarmeistaratitilinn áður en þessi er einhvern veginn extra sætur. Deildin er gríðarlega sterk og við búnir að fara í gegnum alls kyns hluti í vetur, ég hef misst af fleiri leikjum á þessu tímabili en allan ferilinn! Menn hafa verið líka í meiðslum og það er ekki fyrr en rétt í lokin sem við höfum verið með fullt lið svo þetta er verulega ánægjulegt.

Akkúrat. Þessi leikur skiptir stigalega séð náttúrulega engu máli og það má kannski segja að Stólarnir hafi bara viljað þetta svolítið meira, það hafi birst í seinni hálfleik?

Jájá, það var kraftur í þeim, fóru illa með okkur í fráköstum og Woods og Taiwo gerðu alveg mjög vel.  Við vorum að prófa ýmsa hluti, við rúlluðum vel á liðinu enda stutt í næsta leik í úrslitakeppninni. Það var margt fínt í fyrri hálfleiknum en Stólarnir voru bara  betri í dag og áttu sigurinn skilinn.

Ég er sérstakur áhugamaður um svæðisvörn og ég tók eftir því að þið voruð aðeins að prófa það í leiknum…ég man ekki eftir að hafa séð Val í svæðisvörn fyrr í vetur? En þetta er eitthvað sem þið viljið kannski geta gripið í í framhaldinu og voruð að prófa núna?

Já ég hef ekki gert mikið af þessu í gegnum tíðina. En við erum að finna leiðir til að prófa eitthvað nýtt og getað brotið upp leikinn einhvern veginn. Gott að fá smá reynslu af þessu og hafa vidjó af þessu gegn góðu liði. Hver veit nema að við getum gripið í þetta seinna. Vörnin er og verður alltaf okkar aðalsmerki og hefur verið góð í allan vetur. Það er það sem mun skipta langmestu máli þegar fram líða stundir.

Jájá. Nú segir frasinn að það sé mikilvægt að koma með sjálfstraust og eitthvað inn í úrslitakeppnina…en það er kannski bara frasi til að segja eitthvað, þið eruð ekkert að fara að mæta litlir í næsta leik þó þessi hafi tapast?

Neinei, ég hef alveg verið í þeirru stöðu að finnast síðasti leikur fyrir úrslitakeppni skipta miklu máli en mér líður mjög vel með þetta lið og mér finnst góður andi í okkur. Ég hef fullra trú á hópnum og þetta tap mun ekki hafa nein áhrif á okkur.

Ég hef það frá áreiðanlegum heimildum að það sé rosalega góð stemmning í leikmannahópnum, menn góðir vinir og svona, það hlýtur að skipta talsverðu máli í hópíþróttum?

Jú klárlega, þetta þarf að vera gaman. Þetta er virkilega flottur hópur og það þarf engar áreiðanlegar heimildir, það dugir bara að horfa á liðið spila, það var t.d. góður andi í Njarðvíkurleiknum síðast. Við höfum líka bara sýnt það í allan vetur, við höfum verið að hittast á hverjum degi og eytt miklum tíma saman…það væri leiðinlegra ef við myndum ekki njóta þess að vera hver með öðrum…

…það er nú það sem gerist stundum hjá liðum, það er ekki nógu góð stemmning og menn eru ekki nógu góðir vinir…

Klárlega. Það er væntumþykja og við erum með ákveðin kjarna frá því í fyrra og svo hafa nýir menn komið mjög flottir inn, t.d. eins og Daði Lár sem hefur komið mjög flottur inn og Brynjar Snær þó hann hafi ekki verið að spila mikið í vetur. Það eru svona gæjar sem eru dýrmætir, eru bara partur af hópnum. Það er fegurðin í sportinu, að skapa vináttu og minningar til framtíðar. Eins og maður upplifði með KR-strákunum og fleirum, maður saknar margra þeirra úr klefanum…

Jájá, við erum að tala um eitthvað sem er kannski hærra en körfubolti…

Jájá, við viljum vissulega alltaf vinna og leggjum allt í það…en þetta er bara körfubolti og þetta hérna utan um hálsinn á mér telur mikið minna en allt hitt!

Sagði Finnur, og hver segir svo að öll svona íþróttaviðtöl sé ekkert nema innihaldslausir frasar!