Ástralska félagið Keilor Thunder tilkynnti á dögunum að Eva Margrét Kristjánsdóttir leikmaður Hauka væri á leið til félagsins, en Thunder leika í suðurhluta NBL1 deildarinnar, sem er fyrsta deildin í Ástralíu, en tímabil þeirra hefst nú í byrjun apríl.

Samkvæmt þjálfara Hauka Bjarna Magnússyni mun Eva Margrét þó ekki yfirgefa Hauka fyrr en tímabil þeirra í Subway deildinni er búið, en úrslitakeppni deildarinnar rúllar af stað í byrjun apríl. Haukar eru þar öruggar með að vera allavegana í undanúrslitum. Fari svo að Haukar fari í úrslit getur það einvígi að mestu varað til 1. maí.

Þá staðfesti Bjarni einnig að Eva myndi ganga í raðir Hauka á nýjan leik eftir að hún kæmi frá Ástralíu næsta haust.