Karfan hefur sett saman nokkra hópa efnilegra yngri leikmanna sem fjallað verður lítillega um á næstu vikum og mánuðum. Um er að ræða efnilegri leikmenn Íslands, sem líklegir eru til þess seinna að láta að sér kveða í meistaraflokkum betri liða landsins, erlendis eða með a landsliðum þjóðarinnar.

Hérna má sjá átta efnilega undir 17 ára drengi

Eðli málsins samkvæmt er alls ekki um tæmandi lista leikmanna að ræða. Hér eru aðeins nefndir þeir sem komið hafa til sjóna þeirra er koma að gerð þessara frétta.

Átta efnilegar undir 17 ára stúlkur:

Erna Ósk Snorradóttir (2006) – Keflavík

Skorari af guðs náð og einhver svakalegasta byssa sem sést hefur í yngri flokkunum kvennamegin í langan tíma. Alvöru Keflvíkingur. Erna þarf ekki mikinn tíma né pláss til að koma upp skoti og er með alveg ofboðslega fallega stroku. Hún var stigahæsti leikmaður U16 ára landsliðsins á Evrópumótinu í Svartfjallalandi ásamt Ísold með 11.3 stig að meðaltali í leik. Hún átti langbesta skotleik mótsins af öllum leikmönnum þegar hún setti 7 þriggja stiga körfur úr 9 tilraunum í naumu tapi gegn Ísrael. Stelpa sem á eftir að vera gríðarlegur fengur fyrir lið Keflavíkur á næstu árum.

Dzana Crnac (2006) – Njarðvík

Það eru fáar íslenskar stelpur sem eru eins skeinuhættar á fullri ferð á opnum velli og Dzana. Frábær bakvörður með skillset og hugarfar sem við höfum ekki oft séð í íslenskum kvennakörfubolta. Hún býr yfir gríðarlegri íþróttamennsku og alveg óbilandi trú á sjálfum sér. Blanda sem gerir hana að ofboðslega spennandi körfuboltakonu. Þessi eiginleiki sýndi sig best í Subway deildar leik gegn Blikum á dögunum þar sem Dzana kom inn og setti niður þrjár þriggjastigakörfur á tæpum 7 leikmínútum. Er að upplagi úr Keflavík en færði sig yfir til Njarðvíkur í fyrra. Tækifærin hjá Njarðvík hafa þó aðeins látið bíða eftir sér í vetur, en það er alveg ljóst að Dzana verður óhrædd og tilbúin þegar þau koma.

Fjóla Gerður Gunnarsdóttir (2006) – KR

Fjóla er miðherji og varnarakkeri þessa sterka 2006 árgangs í KR. Sterkasti eiginleiki Fjólu er varnarleikurinn hennar og hversu öflug hún er að verja hringinn fyrir sóknum andstæðinga. Fjóla er einnig með mjög góða fótavinnu og getur klárað vel í kringum körfuna. Hún var valinn leikmaður úrslitaleiks 10 flokks síðasta vor, þegar KR sigraði Stjörnuna í jöfnum leik. Þar skilaði hún 15 stigum og 12 fráköstum. Hún var einnig miðherji U16 ára landsliðsins á EM í sumar og var þar í 4. sæti á mótinu yfir varin skot með 1.7 að meðaltali í leik. Fjóla er einnig með einstaklega gott auga fyrir sendingum og matar oft liðsfélaga sína af frábærum sendingum af blokkinni.

Tanja Ósk Brynjarsdóttir (2007) – Aþena
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Tanja erfði körfuboltaáhuga sinn frá föður sínum og stefnir hraðbyri í að vera föðurbetrungur. Hún er alveg einstaklega hörð í horn að taka, en ekki þannig að það blindar mann frá gæðunum sem hún býr yfir. Það eru fáir bakverðir á hennar aldri með betra crossover heldur en Tanja, og hún virðist nánast geta vaðið fram hjá hverjum einasta varnarmanni í 1. deildinni. Í þeim 8 leikjum sem hún spilaði í 1. deild kvenna í vetur var hún með 13 stig að meðaltali í leik, og 3.3 stoðsendingar. Frábærar tölur fyrir 15 ára stelpu. Það verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með framgangi Tönju á næstu árum.

Kolbrún María Ármannsdóttir (2007) – Stjarnan

Kolbrún er partur af hinum frábæra 2007 árgangi Stjörnunnar sem unnið hefur nánast hvern einasta Íslands- og bikarmeistaraitil síðustu árin. Hún er einfaldlega orðinn frábær skorari og er líklegast lang fjölbreyttasti sóknarmaðurinn á þessum lista. Hún er með aggresíft dræv á körfuna sem hún er með undarlega góða stjórn á, fótavinnan í teignum er góð, hún getur klárað vel í kringum hringinn og skotið hennar fyrir utan er banvænt. Hún er að skjóta tæpum 7 þristum í leik í 1 deildinni í vetur og hitta 30% af þeim. Hún er að skora 15.2 stig og taka 7.4 fráköst að meðaltali í leik í frábæru Stjörnuliði og er búinn að vera ásamt Ísold burðarásinn í þessu unga liði. Kolbrún á eftir að verða framtíðar landsliðskona fyrir Ísland ef hún heldur rétt á spilunum. Virkilega spennandi talent.

Anna Margrét Hermannsdóttir (2006) – KR

Anna Margrét er hávaxin framherji sem þrátt fyrir ungan aldur er á sínu öðru ári í meistaraflokki KR. Anna er með einstaklega góða tilfinningu fyrir leiknum, og er lunkinn við að mata liðsfélaga sína með vel tímasettum sendingum. Heildarpakkinn hennar er mjög sterkur, hún er með góða boltameðferð og virkilega smekklega fótavinnu, sérstaklega í kringum körfuna. Anna Margrét var stoðsendingahæsti leikmaður U16 ára landsliðsins á EM í sumar, og í úrslitaleik bikarkeppni 11 flokks í janúar skoraði hún 19 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hún verður lykilleikmaður í meistaraflokksliði KR á næstu árum ásamt Önnu Maríu og Fjólu Gerði.

Anna María Magnúsdóttir (2006) – KR

Anna María stimplaði sig inn í meistaraflokk KR með glæsibrag síðasta vor í undanúrslitaseríu 1. Deildar kvenna, þar sem hún skoraði 11 stig að meðaltali í leik og var ein af bestu leikmönnum liðsins. Hún varð Íslandsmeistari með KR í 10 flokk í vor eftir hörku rimmu við Stjörnuna, og fór svo með U16 landsliði Íslands á NM og EM í sumar þar sem hún var ein af lykilleikmönnum liðsins. Anna María býr yfir mikilli sprengju, og er illviðráðanleg í hraðaupphlaupum og á opnum velli. Hún er mikil íþróttakona sem verður spennandi að fylgjast með á næstu árum. Tímabilið hennar í vetur hefur verið litað af meiðslum sem hún varð fyrir í sumar, en hún er ein af þessum ungu og efnilegu KR stelpum sem ætti að vera horfa út fyrir landssteinana á næstu árum.

Ísold Sævarsdóttir (2007) – Stjarnan

Ein af allra efnilegustu íþróttakonum sem komið hafa fram á sjónarsviðið á Íslandi, Ísold er gríðarlega spennandi talent sem Stjarnan hefur gert ofboðslega vel með. Íþróttamennska hennar er tvímælalaust sú allra mesta af íslenskum körfuboltakonum, sem gerir hana að algjörri martröð að eiga við á báðum endum vallarins. Hún er einfaldlega stórkostlegur varnarmaður, sem að gerir boltapressu á fullum velli að listformi. Margir af bestu bakvörðum Subway deildarinnar hafa lent í vandræðum með að koma upp með boltann gegn henni. Hún er að 3.6 stolna bolta að meðaltali í leik í 1 deild kvenna, ásamt 12.4 stigum og 4.5 stoðsendingum. Ísold kom inn í U16 ára lið Íslands í sumar á fimmtánda aldursári og bar af í liðinu, og endaði EM sem stiga- og framlagshæsti leikmaður liðsins. Hún er sá leikmaður sem áhugafólk um íslenskan kvennakörfubolta ættu að fylgjast hvað mest með.