Hafnfirðingurinn Ágúst Goði Kjartansson hélt út til Þýskalands fyrir síðasta tímabil 2021-22 til þess að æfa og leika með Unibasket Paderborn í Pro A deildinni, en það er næst efsta deildin þar í landi. Paderborn er ríflega 50 ára gamalt félag sem lengst af hefur leikið í efstu eða næst efstu deild Þýskalands.

Ágúst Goði varð 19 ára nú í janúar og var því frekar ungur þegar að hann hélt út. Hann náði þó einu tímabili 2020-21 í úrvalsdeildinni með Haukum áður en hann fór, en þá hefur hann einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands. Nú síðasta sumar undir 18 ára liðinu sem endaði í fjórða sæti Evrópumótsins í Rúmeníu.

Eðli málsins samkvæmt hefur Ágúst Goði mikið spilað fyrir ungmennalið Paderborn síðan hann kom til félagsins, en þá hóf hann einnig að leika fyrir aðalliðið þeirra nú á þessu tímabili og hefur hann í nokkur skipti fengið góðar mínútur með þeim í Pro A deildinni.

Karfan heyrði í Ágústi Goða og spurði hann aðeins út í dvölina í Þýskalandi.

Hvernig er að vera kominn af stað í Pro A deildinni?

“Það er mjög gaman og mikið fjör. Mikil vinna sem hefur farið í það að vinna sér inn mínútur, en það hefur borgað sig seinustu vikurnar”

Hvernig er stemningin í borginni Paderborn?

“Það er bara fín stemning, mikið af íþróttafólki og háskólanemum. Það eina sem mér dettur svona fyrst í hug er að það nota rosalega margir hjól til að ferðast innanbæjar.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?

“Já, það er meira einbeitt sér af varnarleik og liðskörfubolta. Maður er með sitt hlutverk í liðinu og þarf að vinna með það.”

Nú ferð þú út fyrir síðasta tímabil og ert að komast fyrst af stað núna með aðalliðinu. Hvað hefur þú verið að gera í millitíðinni og hvernig hefur þetta ferðalag verið?

“Ég hef verið að spila með U19 ára liðinu sem er í Bundesliga(efstu deild). Það hefur gengið bara mjög vel, enduðum í 3. sæti í deildinni á þessu tímabili og núna í næstu viku byrjar úrslitakeppnin. Annars hef ég alltaf verið að æfa með aðalliðinu og hef verið að leggja mikinn metnað í að fá mínútur. Svo þarf maður bara að vera þolinmóður og treysta á að vinnan sem þú hefur sett í þetta skili sér.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Það kemur bara í ljós þegar á nær dregur. Klára þetta tímabil hérna úti, síðan skoða ég valmöguleikana næsta sumar.”