Ég er búinn að vera hluti af körfuknattleikshreyfingunni samfellt síðan 1980 og sem körfuknattleiksdómari síðustu 36 árin. Á laugardaginn var sat ég körfuknattleiksþing – ársþing KKÍ, sem áheyrnarfulltrúi dómara, með tillögurétt og málfrelsi en ekkert atkvæði. Ég hafði engan málstað að verja og engin sjónarmið fram að færa. Ég var ekki kominn til að hafa nein áhrif á að þessi tillagan eða hin fengi brautargengi. Ég var kominn til að hlusta og fræðast og var tilbúinn að grípa inn í ef mér fannst ég hafa eitthvað gáfulegt til málanna að leggja.
Af gefnu tilefni þá verð ég að segja strax að ég hafði ekki skoðun eða væntingar um neina niðurstöðu og ekki skyldi draga þá ályktun áður en lengra er haldið að ég sé óánægður með einverjar samþykktar tillögur. Svo er alls ekki. Sem dómari eru t.d. allir leikmenn í búningum jafnir fyrir okkur sama hvaðan þeir koma.
En að upplifun minni af þinginu sem ég sótti síðast fyrir um 15-20 árum. Ég var búinn að lesa tillögurnar allar nokkuð vel og taldi mig hafa þokkalega yfirsýn yfir þær. Fyrsta mál var að skipta þeim í tvær nefndir til umfjöllunar (fjárhagsnefnd telur varla í þessu). Ég settist á annan nefndarfundinn með tæplega helmingi þingheims hvar þrettán tillögur lágu fyrir til afgreiðslu á rúmum þremur tímum, uþb 15 mínútur á hverja. Rúmlega 40 mínútur fóru í að ræða fyrstu tillöguna og eitthvað svipað í tillögu númer tvö. Þá færði ég mig í hinn salinn þar sem hin nefndin var að störfum. Á fundum nefndanna voru fínar umræður. En þar fæddust líka hugmyndir að breytingum sem menn reyndu að hripa niður á staðnum. Margar tillögur tóku þar með aðeins aðra stefnu en upprunalega var hugsað. Í nefndunum er í raun engum tillögum vísað frá en sá sem stýrir nefndarstarfinu reynir að kalla fram meirihlutavilja um einhverjar tillögur.
Meðfram nefndarstarfinu er fólk frammi á gangi við skraf og ráðagerðir. Ég var ekki hluti þeirra og veit því ekki hvað fólk ræddi þar.
Þá var komið að því að bera allar þessar tillögur upp til atkvæðagreiðslu fyrir þinginu öllu. Bæði lagabreytingar og reglugerðarbreytingar. Mismunandi meðferð þeirra við atkvæðagreiðslu er ruglingsleg. Ég er mjög vanur í fundarsköpum og félagsstörfum en ég verð að segja að ég átti stundum fullt í fangi að fylgja því um hvað var nákvæmlega verið að kjósa og hvað tæki við ef þessi eða hin tillagan og breytinartillaga við hana yrði ekki samþykkt. Mjög flókið og til þess fallið að mistök yrðu gerð. Yfirsýn og skipulega framsetningu skorti tilfinnanlega að mínu mati.
Ekki ætla ég þingfulltrúum að ráða ekki við flækjustigið. En ég með glöggt auga gestsins upplifði þetta þing sem kaos og til þess fallið að einhver stemming augnabliksins tæki völdin og að málin væru ekki endilega hugsuð alla leið. Sérstaklega með breytingartillögum sem kosið er um en hálfur þingheimur hefur aldrei séð.
Ég ætla að hætta að fara eins og köttur í kringum heitan graut – mér finnst þetta galið. Lítið dæmi sem aldrei kom fram, hvaða áhrif hefur það á niðurröðun dómara að stækka úrvalsdeild kvenna í 10 lið og úrslitakeppnina í 8 lið? Enginn á þinginu hugsaði út í það, amk ekki upphátt. Og stjórn KKÍ þurfti að setja ákvæði við breytingarnar í gær mánudag því annars hefðu þær tekið gildi strax og e.t.v. haft áhrif á liðsskipan nú áður en þetta tímabil klárast. Einföld yfirsjón en er dæmi um óskilvirkni þessarar aðferðar ákvarðanatöku.
Ég hef þá skoðun að þessi aðferðafræði sé ekki besta leiðin til að taka heilladrjúgar ákvarðanir fyrir hreyfinguna. Til þess er hraðinn of mikill, dýptin of lítil, yfirsýnin takmörkuð og hagsmunir einstakra liða of ríkjandi.
Mín tillaga er að lagabreytingar um starfsemi KKÍ eigi að fara fram á svona þingum en breytingar á reglugerðum verði best komið í höndum 10 manna stjórnar KKÍ sem kosin er á þessum þingum. Fulltrúalýðræði. Þingin geta ályktað og skorað á stjórn að breyta hinu og þessu en stjórn verði annars ekki bundin af því heldur sannfæringu sinni. Þannig fengi líka stjórn KKÍ alvöru vægi og eftirsóknarvert væri að komast þar að. Ef stjórnin tekur slæmar ákvarðanir er hægt að kjósa nýja á tveggja ára fresti.
En hvað veit ég? Ég var bara gestur þarna og ekkert agenda.
Virðingarfyllst,
Kristinn Óskarsson körfuknattleiksdómari