Valur lagði Fjölni í kvöld í 20. umferð Subway deildar kvenna, 109-104. Eftir leikinn er Valur í 2. sæti deildarinnar með 34 stig, einum sigurleik fyrir neðan Keflavík sem er í efsta sætinu á meðan að Fjölnir er í 6. sætinu með 10 stig.

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum, en eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 23-23. Heimakonur í Val ná svo í öðrum leikhlutanum að skapa sér forystu og eru 12 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 56-44.

Í upphafi seinni hálfleiksins láta þær svo kné fylgja kviði og er komnar 18 stigum yfir þegar þriðji fjórðungur er á enda. 85-67. Gestirnir úr Grafarvogi ná að hlaða í nokkuð sterkt áhlaup á lokamínútunum þar sem þær eru einni til tveimur körfum frá því að ná að stela sigrinum. Allt kemur þó fyrir ekki, Valur sigrar að lokum með fimm stigum, 109-104.

Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Kiana Johnson með 28 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Fyrir Fjölni var það Brittany Dinkins sem dró vagninn með 46 stigum, 7 fráköstum, 7 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)