Þrír leikir fóru fram í Subway deild kvenna í kvöld. Einn leikur fór fram í Smáranum þar sem heimakonur tóku á móti Valskonum sem hafa verið á mikilli siglingu.

Óhætt er að segja að spennan hafi verið engin í Smáranum í kvöld þar sem gestirnir tóku forystu strax í leiknum og bættu í allt til loka. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 31-15 fyrir Val. Annan leikhluta unnu Valsarar 31-9, var þá ljóst að leik væri lokið og seinni hálfleikur væri formsatriði fyrir bæði lið.

Bæði lið spiluðu á öllum sínum leikmönnum í seinni hálfleik og bættu Valsarar örlítið í forystuna. Lokastaðan 55-102 sigur Valsara.

Kiana Johnson var að vanda frábær hjá Val og endaði með 27 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar á 22 mínútum. Annað framlag Vals dreifðist á milli leikmanna en hin efnilega Sara Boama var með 9 stig.

Hjá Breiðablik var Rósa Björk Pétursdóttir best með 19 stig og 8 fráköst, þá var Þórdís Jóna með 6 stig og 8 stoðsendingar.

Valur hefur nú unnið 13 leiki í röð og eru á gríðarlegri siglingu. Liðið er nú komið í toppsæti deildarinnar en Keflavík á þó leik til góða. Breiðablik hefur tapað tveimur síðustu leikjum og sitja sem fastast í 7. sæti deildarinnar.

Tölfræði leiksins