Haukar lönduðu tveimur stigum gegn Njarðvík í Subwaydeild kvenna í kvöld eftir sveiflukennda glímu í Ólafssal. Í þriðja leikhluta gerðu Njarðvíkngar sig líklega til að taka við stýrinu en Haukar reyndust sterkari í fjórða og lokuðu leiknum 76-73.

Lavinia Da Silva var mætt aftur í Njarðvíkurbúninginn en hún hafði ekki spilað með meisturunum vegna meiðsla síðan um miðjan nóvembermánuð síðastliðinn.

Haukar opnuðu leikinn 16-6 fyrstu fimm mínúturnar. Rúnar Ingi tók þá leikhé fyrir gestina sem komu sprækari eftir það inn í síðustu fimm mínútur leikhlutans. Haukar leiddu þó 21-16 eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Njarðvík byrjaði annan leikhluta jafn illa og þann fyrsta svo Haukar sigu framúr og leiddu 27-18 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Haukavörnin virkilega þétt og flott og Njarðvíkingar að sama skapi að hitta illa. Það rofaði þó til í sóknarleik gestanna undir lok fyrri hálfleiks en Haukar Keira Robinson lokaði fyrri hálfleik með flautukörfu og kom Haukum í 36-25 eftir flott gegnumbrot.

Keira beitt í fyrri hálfleik með 12 stig og 8 fráköst í liði Hauka sem voru að spila virkilega þétta og flotta vörn í fyrri hálfleik. Hjá Njarðvíkingum var Aliyah Collier atkvæðamest í hálfleik með 9 stig og 11 fráköst.

Njarðvíkingar mættu ákveðnar inn í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í 37-36 eða með 1-11 áhlaupi á fyrstu rétt rúmum þrem mínútum síðari hálfleik. Raquel Laneiro m.a. með tvo stóra þrista og talsvert meiri ógnun í gestunum sóknarlega heilt yfir. Njarðvík komst svo yfir í fyrsta sinn í leiknum 40-41 þegar Collier skoraði í teginum og rúmar fjórar mínútur eftir af þriðja leikhluta.

Laneiro fékk hitaslag undir lok þriðja, setti tvo stóra þrista í röð og kom gestunum í 43-49 og Njarðvíkingar leiddu svo 52-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Umtalsverður viðsnúningur á gangi leiksins þar sem Njarðvík vann þessar tíu mínútur 16-28.

Haukar komust aftur við stýrið í fjórða leikhluta, juku muninn í 62-56 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum og það aðallega því þær höfðu náð fyrri takti í vörninni sinni. Lovísa Henningsdóttir kom Haukum í 72-60 með þristi „spjaldið oní“ og þegar þeir detta þá eru lukkudísirnar að senda þér einkaskilaboð.

Haukar hirtu stigin  þar sem Kiera var með 29 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar fyrir Hafnfirðinga. Næst henni var Tinna Guðrún með 16 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Collier atkvæðamest með svaðalega tvennu eða 33 stig og 16 fráköst. Næst henni var Raquel Laneiro með 20 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Viðtöl / Márus Björgvin