Njarðvík marði í kvöld 93-86 sigur á Stjörnunni í Subwaydeild karla. Með sigrinum í kvöld komst Njarðvík upp í 2. sæti deildarinnar en Valsmenn fara í toppsætið eftir sigur gegn Haukum og uppfyrir Keflavík (sem eiga leik til góða gegn Breiðablik á morgun) Super Mario Matasovic, sem er með bestu þriggja stiga nýtingu allra leikmanna í deildinni, var stigahæstur í kvöld með 17 stig og 4 fráköst fyrir heimamenn. Atkvæðamestur í liði gestanna var Adama Darbo með 22 stig og 8 stoðsendingar. Stjarnan í heild gerði annars virkilega vel í leiknum, þá sérstaklega í ljósi þess að liðið var að spila án bandarísks leikmanns, Dags Kár Jónssonar og Tómasar Þórðar Hilmarssonar.

Adama Darbo var að finna fjölina í upphafi leiks í Ljónagryfjunni. Darbo með 14 stig eftir fyrsta leikhluta og ekki búinn að klikka úr skoti. Heimamenn í Njarðvík að sama skapi að setja sína þrista en körfurnar í teignum létu eitthvað á sér standa. Stjarnan leiddi 21-28 eftir fyrsta leikhluta þar sem Haukur Helgi Pálsson læddi niður flaustuþrist fyrir Njarðvík um leið og leikhlutinn rann sitt skeið. Góð byrjun gestanna.

Njarðvíkingar voru ögn sterkari í öðrum leikhluta og unnu hann 22-16 en Stjörnumenn leiddu þó engu að síður 43-44 í hálfleik.

Með nýjan liðsmann á hliðarlínunni þökk sé handvömm í pappírsvinnslu bandarísku alríkislögreglunnar fór að ganga á orkuforðann í liði Stjörnunnar. Njarðvík var mun sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og leiddu 69-60 að honum loknum og unnu því þessar tíu mínutur 26-16. Stjörnumenn voru þó ekki af baki dottnir og gáfu Njarðvíkingum góða glímu í fjórða leikhluta og hótuðu á köflum að fara heim í Garðabæ með tvö stig.

Arnþór Freyr kom Stjörnunni í 81-82 með þrist þegar ríflegar þrjár mínútur lifðu leiks en Njarðvíkingar reyndust samt sterkari á lokasprettinum og kláruðu verkefnið 93-86.

Næsti leikur Njarðvíkinga er Suðurnesjaslagur 10. febrúar gegn Grindavík. Það verður athyglisverð glíma en Grindvíkingar unnu fyrri leikinn í Ljónagryfjunni þar sem Ólafur Ólafsson var á spariskónum. Næst á dagskrá hjá Stjörnunni er slagur gegn Tindastól í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ.

Tölfræði leiks