Stjórn Körfuknattleikssambandsins samþykkti á síðasta stjórnarfundi sínum áskorun til stjórnar ÍSÍ um að endurskoða þá ákvörðun sína að færa sambandið niður um afreksflokk. Ákorunina er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan, en í henni er meðal annars minnst á að niðurfærslan stefni öllu afreksstarfi sambandsins í hættu og að hún komi í kjölfar árangursríkasta árs landsliða sambandsins frá upphafi.
Áskorun til stjórnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands
Körfuknattleikssamband Íslands lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með þá ákvörðun stjórnar
ÍSÍ frá 24. janúar s.l. að færa KKÍ úr afreksflokki A í B. Með ákvörðun sinni stefnir ÍSÍ öllu
afreksstarfi sambandsins í hættu og sendir út skýr skilaboð um afstöðu stjórnar ÍSÍ til afreks- og
landsliðsmála KKÍ. Þetta eru sorgleg skilaboð ekki síst í ljósi þess að árið 2022 var
árangursríkasta ár landsliða KKÍ frá upphafi. Auk þess á A-landslið karla í fyrsta sinn möguleika
á að komast á HM ásamt því að hafa tryggt sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna 2024, fyrst
íslenskra hópíþróttagreina. Því er nú öllu stefnt í hættu.
Að mati stjórnar KKÍ er tímasetning þessarar ákvörðunar sérkennileg þar sem á sama tíma er
boðuð endurskoðun reglugerðar um Afrekssjóð ÍSÍ. Mátti ekki bíða með afdrífaríkar ákvarðanir
þar til endurskoðun var lokið? KKÍ fagnar því vissulega að loks eigi að hefja þá endurskoðun en
bendir á að í mörg undanfarin ár hefur sambandið hvatt til þeirrar vinnu, bæði formlega og
óformlega sem og lagt til tillögur að breytingum.
Áhyggjur stjórnar KKÍ eru ekki mestar af árinu 2023 enda hefur sambandið skuldbundið sig til
allra verkefna í ár. Það sem veldur mestum áhyggjum er afreksstarfið til framtíðar, en að
óbreyttu mun ákvörðun ÍSÍ valda afreksstarfi KKÍ óbætanlegum skaða og hafa þannig áhrif á
vöxt og viðgang körfuknattleiksíþróttarinnar á Íslandi.
Að óbreyttri reglugerð stendur KKÍ frammi fyrir því að þurfa að endurskoða þátttöku karla- og
kvennalandsliða sambandsins í undankeppnum FIBA 2023-2027. Undankeppnir EM 2025
hefjast næsta haust og með þátttöku þar skuldbindur KKÍ sig einnig til að taka þátt í
undankeppni fyrir HM karla 2027, en sú undankeppni hefst á haustdögum 2025. Undankeppnir
HM kvenna eru með öðru sniði. Það er ljóst að KKÍ mun ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að
senda liðin til keppni að óbreyttri reglugerð. Allar áætlanir í þessum efnum eru nú í uppnámi.
Ákvörðun ÍSÍ hefur ekki einungis áhrif á starf A-landsliða KKÍ. Hún setur einnig öflugt afreksstarf
yngri landsliða í uppnám en sumarið 2022 var það besta í sögu yngri landsliða KKÍ, jafnt hjá
drengjum sem stúlkum.
Ljóst er að Afrekssjóður er alvarlega vanfjármagnaður. KKÍ hefur verið í fararbroddi samstarfi
við önnur sérsambönd og beitt sér fyrir því á undanförnum árum að fjárhagslegur stuðningur
ríkisvaldins til Afrekssjóðs sé aukinn til muna með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hér
þarf ríkisvaldið að stíga ákveðið og tafarlaust inn með umtalsvert hærri framlög til Afrekssjóðs
en hingað til.
Körfuknattleikur er ein stærsta íþróttagrein landsins og íslenskur körfuknattleikur hefur aldrei
verið jafn framarlega á alþjóðavísu og nú. Stjórn KKÍ skorar því á forystu ÍSÍ að flýta
endurskoðun reglugerðar um Afrekssjóð og ljúka henni fyrir Íþróttaþing 5.-6. maí 2023. Við
endurskoðunina verði viðvarandi óvissu um fjárveitingar til afreksstarfsins eytt og betur en nú
er gert tekið tillit til umfangs körfuknattleiks hér á landi og þess alþjóðaumhverfis sem KKÍ
starfar í.
Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands – KKÍ