Keflavík lagði Grindavík örugglega í Blue Höllinni

Keflavík lagði Grindavík í kvöld í 20. umferð Subway deildar kvenna, 84-61. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 36 stig á meðan að Grindavík er í 5. sætinu með 16 stig.

Fyrir leik

Eins og hjá öðrum liðum deildarinnar var viðureign kvöldsins sú fyrsta eftir landsleikjahlé hjá Keflavík og Grindavík. Bæði lið fóru tiltulega köld inn í fríð, þar sem Keflavík hafði unnið aðeins einn síðasta leik sinn og Grindavík tapað síðustu tveimur fyrir hléið.

Liðin höfðu í tvígang áður mæst í deildinni á tímabilinu og hafði Keflavík haft sigur í báðum viðureignum. Þann 23. október unnu þær með 10 stigum heima í Keflavík, 84-74, og þann 14. desember með 11 stigum í Grindavík, 78-89.

Gangur leiks

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur ná heimakonur í Keflavík nokkuð góðum tökum á leiknum í lok fyrsta leikhlutans, en staðan að fjórðungnum loknum er 18-9. Grindavík nær svo góðu áhlaupi í upphafi annars leikhluta, þar sem þær skera niður forskot heimakvenna og komast yfir þegar rúmar fimm mínútur eru eftir af hálfleiknum, 25-26. Með herkjum ná heimakonur þó að komast aftur yfir og eru 4 stigum á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-35.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 9 stig á meðan að fyrir Grindavík voru Elma Dautovic og Hekla Eik Nökkvadóttir með 9 stig.

Keflavík nær aftur góðum tökum á leiknum í upphafi seinni hálfleiksins. Koma forystu sinni upp í 14 stig á fyrstu 5 mínútum þriðja fjórðungs, 54-40. Grindavík svarar þessu áhlaupi heimakvenna með miklu óðagoti, þar sem þær bæði tapa boltanum oft og sætta sig við léleg skot sóknarlega. Keflavík heldur áfram að malla og ná mest að koma forskoti sínu í 22 stig undir lok þess þriðja, en staðan fyrir lokaleikhlutann var 67-48.

Grindavík nær ekki að gera neina alvöru atlögu að forystu heimakvenna í fjórða leikhlutanum. Gera þó ágætlega að halda fengnum hlut. Niðurstaðan að lokum nokkuð öruggur sigur Keflavíkur, 84-61.

Atkvæðamestar

Best í liði Keflavíkur í kvöld var Daniela Wallen með 19 stig, 12 fráköst, 11 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá bætti Birna Valgerður Benónýsdóttir við 18 stigum og 3 fráköstum.

Fyrir Grindavík var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 19 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar. Henni næst var Elma Dautovic með 12 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 22. febrúar, en þá fær Grindavík nýliða ÍR í heimsókn á meðan að Keflavík mætir Fjölni í Dalhúsum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)