Nú í febrúar leikur íslenska karlalandsliðið síðustu tvo leiki sína í undankeppni HM 2023. Fyrri leikurinn er heima gegn Spáni þann 23. febrúar, en lokaleikurinn er svo úti gegn Georgíu þann 26. febrúar. Eftir síðasta glugga þar sem Ísland tapaði naumlega heima gegn Georgíu og fyrir Úkraínu var ljóst að fyrir þennan lokaglugga yrði staðan í riðlinum nokkuð snúin.

Bæði náðu Ítalía og Spánn að bóka miða sína í nóvemberleikjunum, en eins og staðan er núna munu Georgía, Ísland og Úkraína öll berjast um þriðja og síðasta þátttökusætið í riðlinum.

Leikir febrúargluggans

Ísland: Spánn (heima) og Georgía (úti)

Georgía: Holland (úti) og Ísland (heima)

Úkraína: Ítalía (úti) og Holland (heima)

Fyrir þessa leiki eru Georgía og Ísland jöfn að stigum í 3.-4. sæti riðilsins þar sem að Georgía er skör ofar vegna innbyrðisviðureignar. Úkraína er svo einum sigurleik fyrir aftan liðin í 5. sætinu.

Fyrir utan seinni leik Íslands og Georgíu má segja að fyrir Ísland sé viðureign Ítalíu og Úkraínu í seinni glugganum mikilvægust. Fari svo að Úkraína vinni þann leik, þá þarf Ísland eiginlega að vinna Spán sama dag til þess að eiga raunhæfa möguleika á að komast áfram. Fari hinsvegar svo að Úkraína tapi leiknum á Ítalíu, nægir Íslandi að vinna Georgíu úti með meira en fjórum stigum til þess að tryggja sig á lokamótið, óháð úrslitum leiksins gegn Spáni.

Þannig að það eru ágætis líkur á að Ísland þurfi aðeins einn plús fjögurra stiga sigur gegn Georgíu nú í febrúar til þess að tryggja sig á lokamótið, en það er háð því að Úkraína nái ekki að vinna Ítalíu í fyrri leik sínum í glugganum.

Vinni Úkraína hinsvegar Ítalíu á sama tíma og Ísland myndi tapa fyrir Spáni, yrðu liðin þjú mögulega jöfn að stigum eftir mögulegan sigur Íslands í seinni leiknum í Georgíu, en þá myndi sá sigur þurfa að vera tæp 20 stig fyrir Ísland til þess að komast áfram.

Auðveldasta leiðin fyrir Ísland til þess að komast á lokamótið er því að vinna Spán heima og Georgíu úti með meira en fjórum stigum. Til vara væri leið tvö að vona að Úkraína nái ekki að krækja sér í sigur á erfiðum útivelli á Ítalíu og þá skiptir Spánarleikur Íslands engu máli og liðið þyrfti bara að ná í fjögurra stiga sigur úti í Georgíu til þess að komast áfram. Erfiðasta mögulega leiðin væri ef að bæði Ísland myndi tapa fyrir Spáni og Úkraína vinna á Ítalíu, að þá myndi Ísland ná í 19 stiga sigur á Georgíu í seinni leiknum og tryggja sig þannig á lokamótið.

Hér fyrir ofan er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bæði Úkraína og Georgía klári sína leiki gegn Hollandi í næsta glugga, en Holland hefur enn ekki náð í sigur á mótinu eftir fyrstu sjö leiki sína.

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil