Höttur lagði KR í kvöld í 16. umferð Subway deildar karla, 82-81. Eftir leikinn er Höttur í 9. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að KR er í 12. sætinu með 4 stig.

Leikurinn var í nokkru jafnvægi í upphafi. Heimamenn leiddu þó með 3 stigum eftir fyrsta leikhluta, 26-23. Fram að lokum hálfleiks nær Höttur áfram að vera skrefinu á undan og eru 4 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-43.

Í upphafi seinni hálfleiksins nær Höttur svo að slíta sig frá gestunum og eru 13 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. KR gerir nokkuð vel undir lok leiksins að skera á forskot Hattar og ná alveg undir lokin að koma sér í færi til þess að stela leiknum, en allt kemur fyrir ekki. Höttur sigrar að lokum með minnsta mun mögulegum, 82-81.

Bestur í liði Hattar í kvöld var Nemanja Knezevic með 14 stig og 10 fráköst. Honum næstur var David Guardia með 12 stig og 3 stoðsendingar.

Fyrir KR var Antonio Williams með 19 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

Tölfræði leiks