Haukar lögðu heimakonur í Fjölni nokkuð örugglega í kvöld í 19. umferð Subway deildar kvenna, 46-91.

Eftir leikinn eru Haukar í 2. sæti deildarinnar með 30 stig líkt og Valur, en Valur eiga leik til góða seinna í kvöld gegn Grindavík. Fjölnir er hinsvegar öllu neðar í töflunni, í 6. sætinu með 10 stig.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins aldrei neitt sérstaklega spennandi. Gestirnir úr Haukum leiddu með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 15-24 og með 20 stigum þegar í hálfleik var komið, 26-46.

Heimakonur gera ágætlega að missa Hauka ekki mikið lengra frá sér í upphafi seinni hálfleiksins, en enn munar þó 24 stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann, 40-64. Eftirleikurinn því nokkuð einfaldur fyrir Hauka, sem sigra að lokum með 45 stigum, 46-91.

Atkvæðamest fyrir Hauka í leiknum var Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 26 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Fjölni var það Urté Slavickaite sem dró vagninn með 18 stigum og 3 stoðsendingum.

Næstu leikir liðanna eru eftir landsleikjahléið sem hefst nú þegar þessi umferð klárast. Þann 19. febrúar taka Haukar á móti Njarðvík í Ólafssal og Fjölnir heimsækir Val í Origo Höllina

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)