Framtíð A-landsliða Íslands í körfuknattleik gæti verið í hættu, vegna ákvörðunar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands að færa KKÍ niður í B-flokk samkvæmt úthlutunarreglum Afrekssjóðs ÍSI. Þetta kemur fram í viðtali Vísis.is við Hannes S. Jónsson, formann KKÍ.

KKÍ var fært niður úr A-flokki Afrekssjóðs í B-flokk á síðasta ári, að því er virðist vegna þess tíma sem hefur liðið frá því að íslenskst A-landslið í körfuknattleik hefur komist á stórmót. Ísland komst síðast á stórmót á Eurobasket 2017. Hannes telur þó fráleitt að slík sjónarmið séu ein og sér látin ráða för. Einnig ætti að líta til þátta á borð við vinsælda íþróttar á heimsvísu sem og á landsvísu, en í báðum þáttum skori körfuknattleikur mjög hátt.

Karlalandslið Íslands eygir enn möguleika á að komast á HM í Japan, Indónesíu og Filippseyjum sem fram fer í haust. Þá mun karlaliðið ennfremur taka þátt í forkeppni Ólympíuleikanna í París á næsta ári, og er það íslenska landslið sem er næst því að komast inn á leikana eins og sakir standa. Hins vegar gæti þátttaka liðsins í undankeppni Eurobasket 2025 verið úr sögunni, þar sem tilkynna þarf þátttöku til FIBA Europe í maí á þessu ári.