Georgía tekur á móti Íslandi í Tíblisi komandi sunnudag 26. febrúar í lokaleik liðanna í undankeppni HM 2023, en leikurinn er úrslitaleikur um síðasta sæti L riðils inn á lokamótið sem fram fer seinna á þessu ári. Vegna innbyrðisstöðu þarf Ísland að vinna leikinn með fjórum stigum eða meira, þar sem að bæði er Georgía seinum sigurleik fyrir ofan Ísland í riðlinum, sem og unnu þeir fyrri leik liðanna í Laugardalshöll þann 11. nóvember með þremur stigum, 85-88.

Hérna eru fréttir af HM 2023

Georgíska körfuknattleikssambandið hefur verið duglegt að birta myndbandskveðjur á samfélagsmiðlum sínum síðustu daga, en líkt og fyrir Ísland er um risastórt afrek að ræða fyrir þá, sem hafa heldur aldrei áður komist á lokamótið.

Eina slíka kveðju er hægt að sjá hér fyrir neðan, en hún er frá einum besta leikmanni í heiminum í dag, gríska leikmanni Miwaukee Bucks í NBA deildinni Giannis Antetokounmpo. Kveðjan er einföld, þar sem Giannis segist senda þeim góðar kveðjur og að þeir sjáist á lokamótinu, en hann hefur, líkt og fjölmargar aðrar stjörnur, tilkynnt að hann muni leika með landsliði sínu þar.

Grikkland er eitt níu liða sem þegar hafa tryggt þátttökurétt sinn á lokamótinu, en hin eru Finnland, Lettland, Þýskaland, Slóvenía, Frakkland, Litháen, Spánn og Ítalía.

Án þess að það sé staðfest mætti frekar ætla að georgískur liðsfélagi Giannis hjá Milwaukee Sandro Mamukelashvili væri ástæða þessarar kveðju heldur en einhver sérstök óbeit hans á því að Ísland næði að komast í fyrsta skipti á lokamótið, en ekkert er þó sérstaklega tekið fram afhverju Giannis styður Georgíu í þessari baráttu gegn Íslandi.

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil