Formaður KKÍ Hannes Jónsson sendi í gær bréf til formanna, framkvæmdarstjóra og starfsmanna félaga er útskýrir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna þeirra búsifja sem sambandið varð fyrir í síðustu úthlutun Afrekssjóðs.

Bréfið er birt í heild hér fyrir neðan, en í því er einnig bent á að þessi síðasta úthlutun sé ekki ekki stærsta vandamálið. Heldur sé það sú staðreynd að ÍSÍ hafi fært sambandið niður úr A flokk niður í B flokk og að það muni hafa gífurlega slæmar afleiðingar á næstu árum. Enn frekar er litið til þess að þetta hafi verið gert þrátt fyrir að síðustu ár og þá sérstaklega árið 2022 hafi verið gott bæði fyrir A og yngri landslið Íslands.

Kæru formenn, framkvæmdastjórar og starfsmenn félaganna

(Afrit af bréfinu er sent til ráðherra íþóttamála, forystu ÍSÍ, stjórnar KKÍ og nefnda KKÍ ) 

Ég vil byrja á því að þakka ykkur sem hafið haft samband undanfarna daga til að fá frekari upplýsingar um stöðuna á okkar afreks- og landsliðsstarfi eftir að stjórn ÍSÍ tilkynnti ákvörðun um úthlutun afreksjóðs fyrir árið 2023. Ég veit að ég hef ekki náð að svara ykkur öllum undanfarna daga og vona að þessi tölvupóstur skýri aðeins betur stöðuna eins og hún er núna.

Þessi niðurstaða stjórnar ÍSÍ veldur okkur gríðarlegum vonbrigðum. Það er nokkuð ljóst að þessi ákvörðun að færa KKÍ niður í B afrekssamband gefur körfuknattleikshreyfingunni skýr skilaboð um afstöðu stjórnar ÍSÍ til afreks- og landsliðmála KKÍ. Það er miður og að okkar mati ansi döpur skilaboð, sér í lagi þegar horft er til þess að árið 2022 var besta ár landsliða KKÍ þegar kemur að íþróttalegum árangri.

Að mati okkar í KKÍ þá er tímasetning þessarar ákvörðunar frekar undarleg þegar fara á í endurskoðun reglugerðar um afrekssjóð, auk þess sem ráðherra íþróttamála hefur háleit markmið fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar sem unnið hefur verið í samvinnu við ÍSÍ. Að fara í þetta miklar breytingar á úthlutun úr afrekssjóði verður að teljast í besta falli vafasamt þegar breytingar á reglugerð sjóðsins standa fyrir dyrum. KKÍ fagnar því mjög að nú loksins í janúar 2023 sé búið að taka ákvörðun um þessa vinnu við endurskoðun reglugerðarinnar. KKÍ hefur á undanförnum árum átt í formlegum sem og óformlegum samskiptum við forystu ÍSÍ um nauðsyn þess að gera breytingar á reglugerðinni sem nú loksins á að fara í. Það er miður fyrir íslenskan körfubolta að ekki hafi verið farið fyrr í þessa vinnu, því áhrif fyrrgreindrar ákvörðunar geta verið umtalsverð á körfuknattleikshreyfinguna í heild sinni.

Fyrrum afrekssjóri ÍSÍ og núverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ hefur sagt að lykilatriði við skilgreiningu afrekssjóðs á A-afrekssamböndum sé grein 13.1, en þar segir að íþróttagrein verði að hafa komist á lokamót stórmóta á síðustu fjórum árum. KKÍ hefur mótmælt þessari túlkun, þar sem reglugerðin tekur einnig til fleiri þátta. Mikilvægt er að horfa til þess að í a) lið segir að afrekssambönd eru þau sambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega þátttöku á hæsta stigi í viðkomandi íþróttagrein, með frábærum árangri. Það er því talsverð þversögn í túlkun afrekssjóðs að færa KKÍ niður um flokk eftir besta landsliðsár KKÍ. Það er líka mikilvægt að athuga að reglugerðin tekur á svo mörgu öðru, svo sem að sjóðsstjórn geti metið stærð greinar á heimsvísu. Öll erum við ágætlega meðvituð um það að körfubolti er ein stærsta og vinsælasta íþrótt í heimi. Einnig er tiltekið að sérsambandið verður að taka þátt í HM/EM sem KKÍ gerir. Fleira mætti telja til úr reglugerð afrekssjóðs. Fyrir þau ykkar sem vilja kynna sér reglugerð afrekssjóðs þá má nálgast hana hérna.

Í þessu sambandi viljum við það komi skýrt fram að áhyggjur okkar eru ekki mestar af árinu 2023, heldur að afreksstarf KKÍ muni hljóta óbætanlegan skaða til framtíðar og hafa þannig áhrif á körfuboltann á Íslandi. Það er öllum ljóst að þessi ákvörðun mun hafa áhrif á allt starf KKÍ til frambúðar, nema ný, uppfærð og sanngjörn reglugerð verð kynnt um mánaðarmótin apríl/maí á þessu ári. Forseti ÍSÍ hefur lýst yfir þeim vilja sínum að reglugerðin verði klár fyrir vorið og við hjá KKÍ treystum honum fyrir því. Meðan reglugerðin er óbreytt stendur KKÍ frammi fyrir því að skoða þurfi þátttöku karla- og kvennalandsliða sambandsins í undankeppnum FIBA 2023-2027. Undankeppnir EM 2025 hefjast næsta haust og með þátttöku þar skuldbindur KKÍ sig einnig til að taka þátt í undankeppni fyrir HM 2027, en sú undankeppni hefst á haustdögum 2025. Þetta hefur þó ekki einungis áhrif á starf A landsliða, því þetta setur öflugt afreksstarf yngri landsliða einnig í uppnám. Það er því sama hvernig á það er horft, þessi ákvörðun hefur gríðarleg áhrif á möguleika KKÍ að halda úti eðlilegu afreksstarfi og ógnar tilveru íslensks körfubolta.

KKÍ fékk úthlutað 35,8 milljónir fyrir 2023. Árið 2022 voru það 50,3 milljónir. Miðað við túlkun stjórnar ÍSÍ og afrekssjóðs á B samböndum þá mun 2024 færa KKÍ að hámarki 15 til 18 milljónir. Raun úthlutun KKÍ á þessu ári er um 15 milljónir, en til viðbótar fékk KKÍ auka 20 milljóna króna úthlutun til að milda höggið af því að fara niður um flokk, ásamt því hversu seint ákvörðun ÍSÍ lá fyrir. Því miður þýðir þessi veigamikla ákvörðun að KKÍ mun ekki geta niðurgreitt hlut leikmanna yngri landsliða eins og hefur verið gert mörg undanfarin ár.

Eitt af því sem KKÍ og fleiri sérsambönd hafa bent ítrekað á, á undanförnum árum er hversu seint ÍSÍ ár eftir ár tilkynnir fjármagn til afreksstarfs sérsambanda sinna. Þessu verður einnig að breyta í þeirri vinnu sem framundan er.

Forysta KKÍ gerði allt sem hægt var frá því ákvörðun þessi var tilkynnt sambandinu óformlega 13. desember sl. til að fá stjórn ÍSÍ til að skipta um skoðun í málinu. Forysta KKÍ færði sín rök fyrir því afhverju ætti að bíða með þessa ákvörðun og auk þess var stjórn ÍSÍ gefinn vinnufriður til að klára málið án opinberrar umfjöllunar. Eins og komið hefur verið inn á og við ítrekum hér, þá eru þetta okkur mikil vonbrigði

Það skal tekið fram að forseti ÍSÍ hefur á okkar fundum líst yfir ríkum vilja til að reglugerð um afrekssjóð sé breytt og það sé í raun ósanngjart að sérsamband geti lent í því sem KKÍ er að lenda núna. Það er einnig mat forseta ÍSÍ og stjórnar að stjórnin geti ekki tekið fram yfir hendurnar á stjórn afrekssjóðs því erum við hjá KKÍ ósammála eins og svo mörgu öðru sem ÍSÍ notar í sínum rökum. Því í reglugerð segir meðal annars að stjórn afrekssjóðs skuli leggja tillögur sína fyrir stjórn ÍSÍ til endanlegrar staðfestingar og á það einnig við um flokkun í A, B og C. Stjórn ÍSÍ getur einnig óskað eftir því við stjórn afrekssjóðs að hún taki tillögur sínar til efnislegrar endurskoðunar áður en stjórn ÍSÍ staðfestir þær. Það er því alveg ljóst í okkar huga að á endanum er það stjórn ÍSÍ sem ber ábyrgð á endanlegri úthlutun úr afrekssjóði  

Það skal líka koma skýrt fram hérna að KKÍ hefur beitt sér fyrir því á undanförnum árum að fjárhagslegur stuðningur ríkisvaldins til afrekssjóðs sé aukinn til muna, en afrekssjóður er alvarlega vanfjármagnaður. Hér þarf ríkisvaldið að stíga mun fastar inn og það er ekki hægt að bíða í enn eitt ár eftir hækkun á framlagi ríkisins í afrekssjóð. 

Forysta KKÍ hefur átt í samskiptum við ráðherra íþróttamála frá því málið kom upp og haldið honum upplýstum um málið. Með þessari ákvörðun stjórnar ÍSÍ hefur forysta KKÍ komist nær þeirri skoðun að úthlutun á opinberu fé sem er afrekssjóður er byggður upp að mestu ættu heima hjá ráðherra.  

Þann 13. desember sl var starfsemi sambandsins sett í fjárhagslega, afrekslega og faglega spennitreyju í boði stjórnar ÍSÍ. Stjórn ÍSÍ getur ef vilji er er fyrir hendi losað KKÍ úr þessari spennutreyju með breytingu á reglugerð og gefið skýrt út til KKÍ hver staða KKÍ verður á næstu árum varðandi úthlutanir og flokkun afrekssjóðs.