Ríkjandi deildarmeistarar Fjölnis tóku á móti Grindavík í gærkvöldi í Subwaydeild kvenna. Fyrir leik höfðu heimakonur unnið 5 leiki og tapað 16, en Grindavík eygði möguleika á að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppni deildarinnar með 9 sigra og 12 töp í fimmta sæti deildarinnar.

Gestirnir hófu leikinn betur, og höfðu þriggja stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta, 20-23. Grafarvogsbúar náðu vopnum sínum í öðrum fjórðungi og höfðu sjálfar þriggja sitga forskot í hálfleik, 39-36.

Fjölniskonur voru alltaf skrefinu á undan í seinni hálfleik og náðu mest níu stiga forskoti um miðbik þriðja leikhluta. Grindvíkingar voru hins vegar aldrei langt undan. Þegar rúm mínúta lifði af leiknum náði Fjölnir sex stiga forskoti, 80-74, og virtust ætla að sigla sigrinum heim. Grindavík náði þó að minnka muninn í tvö stig, 80-78, áður en yfir lauk, en sú varð lokastaðan.

Stigahæst í liði Fjölnis var Brittany Dinkins með 30 stig, en Amanda Okodugha var stigahæst í liði gestanna með 19 stig.

Næsti leikur Fjölnis er gegn ÍR á heimavelli í Dalhúsum miðvikudaginn 1. mars, en sama kvöld tekur Grindavík á móti Njarðvík.