Íslenska karlalandsliðið lauk keppni um helgina í undankeppni HM 2023 með grátlegum þriggja stiga sigri gegn Georgíu í Tíblisi, en til þess að komast á lokamótið hefði liðið þurft að vinna með fjórum stigum eða fleiri.

Þrátt fyrir að liðið hafi ekki komist á lokamótið var árangur liðsins í þessari undankeppni sá besti í sögunni, en að lokum var það stigatala sem skar úr um hvort að Georgía eða Ísland færi ásamt ellefu öðrum sterkustu þjóðum á lokamótið sem haldið er í Asíu seinna á árinu.

Hérna eru fréttir af HM 2023

Þessi góði árangur íslenska liðsins í undankeppninni gefur Íslandi forskot í tveimur næstu keppnum. Þar sem liðið vann sér í fyrsta skipti inn þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleika og þá fer liðið beint í riðlakeppni undankeppni EuroBasket 2025.

Báðar eiga þessar keppnir að hefjast seinna á árinu, en vegna ákvörðunar ÍSÍ um að færa afreksstarf KKÍ niður um flokk er þátttaka liðsins, sem og annars afreksstarfs í körfubolta sett í fullkomið uppnám. Réttlæting ÍSÍ fyrir þessari niðurfærslu er sú að á einhverjum stað í regluverki þeirra stendur að fari lið ekki reglulega á stórmót, sé ekki ástæða til að styrkja afreksstarf viðkomandi íþróttir nema að virkilega takmörkuðu leyti. Ekki virðist vera tekið tillit til skipulags keppni hjá landsliðum sérsambanda, hversu oft stórmót séu haldin og þess er tekið er fram í þeirra eigin regluverki, að tekið skuli tillit til stærðar íþróttar á heimsvísu.

Þjálfari kvennalandsliðs Íslands Benedikt Guðmundsson gerir viðkomandi hættu sem ÍSÍ setur körfubolta á Íslandi í að umtalsefni á samfélagsmiðlum fyrr í kvöld. Færsluna er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan, en í henni segir hann meðal annars að hlutallslega séu landslið Íslands rekin fyrir brot á við það sem samkeppnisþjóðir þeirra séu og að það sé sorglegt að íslensk landslið þurfi samt að berjast fyrir tilverurétti sínum.