Stjörnumenn hafa nú loksins fengið leikheimild fyrir nýjan bandarískan leikmann sinn, Armani Moore, sem samdi við liðið fyrir tæpum mánuði síðan. Þetta var tilkynnt á Facebook síðu félagsins í dag.

Moore er 29 ára og hefur áður leikið í Þýskalandi, en hluti af töfinni á því að kappinn fengi leikheimild var sá að þýskt sakavottorð hans hafði ekki skilað sér til Útlendingastofnunar. Nú er sakavottorðið hins vegar komið í hús, og reyndist Moore ekki vera glæpamaður, eins og Stjörnumenn orðuðu það fimlega í tilkynningu sinni. Stjörnumenn munu því tefla fram nýjum leikmanni í næsta leik sínum gegn Tindastóli, fimmtudaginn 9. febrúar n.k.